143. löggjafarþing — 83. fundur,  27. mars 2014.

skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis um Íbúðalánasjóð o.fl.

474. mál
[15:35]
Horfa

Vilhjálmur Bjarnason (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get einungis bent hv. þingmanni á að lesa skýrslu Íbúðalánasjóðs um sundurliðun á þessum 270 milljörðum, ég er ekki með það hér. En þingmaðurinn nefnir að útlán bankanna hafi aukist úr einhverjum hundruðum milljarða í 4 þús. milljarða. (ÞorS: 4.800 milljarða.)

Hér er ég með útskrift úr tölum Seðlabankans. Útlán bankanna jukust úr 200 milljörðum í 1 þús. milljarða á þessum tíma, þannig að hvaðan þessir 4 þús. milljarðar koma er mér algjörlega óskiljanlegt. Heildarútlán bankanna, þegar bankakerfið hrundi, til innlendra aðila voru um 5.400 milljarðar. Þessir 4 þús. milljarðar sem vaða hér uppi, ekki aðeins hjá þér heldur hjá hv. þm. Ögmundi Jónassyni fyrr í morgun — ég veit ekki hvaðan þeir koma, þessi tala er alröng. En það að koma sér inn í það sem þjóðin gerði, algjörlega að óþörfu, kann að vera hluti af þeim 59 milljörðum sem þingmaðurinn nefnir.

Ég ætla því ekki að svara þessu með 4 þús. milljarðana, það er algjörlega röng tala. Ég þori ekki að skilja þetta eftir hér í pontu, en hv. þingmaður getur fengið þessar tölur hjá mér eins og ég tók þær út af seðlabankavefnum í morgun.