143. löggjafarþing — 83. fundur,  27. mars 2014.

skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis um Íbúðalánasjóð o.fl.

474. mál
[15:36]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (F) (andsvar):

Mér er ljúft að upplýsa hv. þingmann um það að í stuttu máli er hægt að segja að því „senaríó“, afsakið, herra forseti, sem þarf að vera til þess að 270 milljarða tap verði á Íbúðalánasjóði, var lýst þannig af einum gesti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar að hér þyrfti að verða annað hrun eins og varð 2008, annað hrun. Og til þess að svo mætti verða þyrftu líka allir þeir sem eru með lán hjá Íbúðalánasjóði að greiða þau upp á einum og sama deginum.

Ég vænti þess að hv. þingmaður sé tölugleggri en ég þannig að ég bið hann um að segja mér: Hvaða líkur eru á því að allir lánasamningar Íbúðalánsjóðs verði greiddir upp á einum og sama deginum? Getur hann gefið mér upp hvaða líkur eru á því, einn á móti hverju?