143. löggjafarþing — 84. fundur,  31. mars 2014.

samningar við kröfuhafa gömlu bankanna.

[15:15]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég sé ástæðu til að byrja á því að þakka hv. þingmanni fyrir þessa ágætu upprifjun á því sem ég sagði í aðdraganda kosninga. Það er fyrst og fremst staðfesting á því að ég hafi farið með rétt mál í aðdraganda kosninga í þessu eins og öðru. Nú virðist ekki vera ágreiningur um það lengur, ég geri ráð fyrir að hv. þm. Guðmundur Steingrímsson sé til dæmis sammála því að það svigrúm sem þarna var rætt þurfi að myndast. Jafnframt hefur ríkisstjórnin sem nú situr skattlagt slitabúin sérstaklega, nokkuð sem síðasta ríkisstjórn gerði aldrei. Þar sjá menn fyrir sér að skatttekjur vari þetta næstu fjögur árin sem nema yfir 100 milljörðum kr. Það breytir ekki því að áfram munu eiga sér stað viðræður við þá aðila en það er ekki ríkisvaldið sem stendur í þeim viðræðum. Það eru í gangi viðræður, voru að minnsta kosti, um svokallaða nauðasamninga, menn voru að reyna að ná samningum sín á milli, aðilarnir sem eiga beina aðkomu að málinu. Hlutverk ríkisvaldsins í því og stjórnvalda er hins vegar eingöngu að segja til um hvort hugsanleg niðurstaða slíkra viðræðna geri það að verkum að hægt verði að aflétta höftum, þ.e. hvort í þeim viðræðum hafi orðið til þetta svigrúm sem er forsenda þess að hægt verði að aflétta höftunum.