143. löggjafarþing — 84. fundur,  31. mars 2014.

stuðningur við listdansnám.

399. mál
[17:29]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. fyrirspyrjanda spurninguna sem snýr að framtíðarsýn um fjárhagslegan stuðning hins opinbera, ríkis og sveitarfélaga, við listdansnám.

Þá er til að taka að aðalnámskrá fyrir listdansskóla var fyrst gefin út árið 2006. Hún var í tveimur hlutum, fyrir grunnnám og framhaldsnám. Framhaldsnámið getur tengst námskrá framhaldsskóla og námskráin lýsir meginmarkmiðum náms í listdansi upp að háskólastigi. Hlutverk aðalnámskrár er einkum að samræma helstu þætti listdansnámsins milli skóla og innan einstakra skóla og mynda eðlilega stígandi í náminu.

Aðalnámskrá fyrir grunnnám setur upp markmið fyrir byrjendur í listdansi. Í henni eru sett lokamarkmið og áfangamarkmið og í aðalnámskrá á framhaldsstigi eru sett markmið fyrir nám í listdansi fyrir nemendur sem hyggja á frekara nám í listgreininni. Það var ætlunin að meta þá námskrá að nokkrum árum liðnum og endurskoða í samráði við listdansskóla og samtök listdanskennara. Ég hef fullan hug á því að láta framkvæma það verk. Skýrslan um listdanskennslu á Íslandi frá 2013 sýnir að einkaskólar hafa að megni til haldið uppi listdanskennslu með stuðningi frá ríkinu. Sveitarfélög hafa að því er ég best veit yfirleitt ekki stutt þessa skóla, eins og kom fram í máli hv. þm. Katrínar Jakobsdóttur.

Ég velti því auðvitað fyrir mér, og er kannski á svipuðum slóðum og hv. þingmaður, hvort ekki væri eðlilegt að svipað fyrirkomulag gildi almennt um listdans, tónlist og myndlist, svo dæmi séu tekin. Engin lög eru til um listfræðslu utan það sem segir í lögum um almenna skólaskyldu. Lög um tónlistarfræðslu hafa verið í smíðum í mörg ár en ekki náðst samstaða um þau, en þar hefur ekki síst strandað á fjármálasviðinu. Stundum hefur verið rætt hvort ástæða sé til að semja heildarlöggjöf um listmenntun fremur en að semja lög um eina listgrein eða hverja listgrein fyrir sig. Listaskólar sem flestir standa utan við almenna skólakerfið skortir lagagrundvöll og eiginlegur rammi um listfræðslu er ekki til þótt námskrár séu það og byggja þær því ekki á neinum lögum. Til eru hugmyndir og skýrslur um listmenntaskóla, sem ég veit að hv. þingmaður þekkir vel sem fyrrverandi ráðherra menntamála, sem kannski væri vert að skoða aftur og velta fyrir sér í ljósi aðstæðna.

Við eigum líka að líta til þess hversu árangursríkt starf hefur verið unnið í tónlistarskólum landsins þegar við skipuleggjum nám fyrir aðrar listgreinar. Ungt tónlistarfólk okkar, og reyndar tónlistarfólk á öllum aldri, gerir garðinn nú frægan í útlöndum og ber það þess vitni hversu miklum ávinningi skipulag og kröfuhæft listnám getur skilað til framtíðar. Það má því segja að stefnumótun um listfræðslu sé á nokkrum tímamótum. Ekki er óeðlilegt að gerð verði úttekt þar sem reynslan af aðalnámskrá listdansskóla verði metin, höfð verði hliðsjón af skýrslu þeirri sem hv. þingmaður nefndi sem Anne Bamford gerði árið 2011, og eins á fyrrgreindri skýrslu um listdanskennslu frá 2013. Að því loknu verði þá gerð drög að endurskoðun námskrárinnar og jafnframt verði hugað að lagagrunni listdansskólanna og tengslum þeirra við almenna skólakerfið og aðra listaskóla, svo sem tónlistarskólann. Eðlilegt er að þetta verði gert í samráði við listdansskólann, samtök listdanskennara, Samband íslenskra sveitarfélaga sem og aðra hagsmunaaðila.