143. löggjafarþing — 86. fundur,  1. apr. 2014.

störf þingsins.

[13:43]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég er enn að velta fyrir mér hvernig við getum yfir höfuð verið með einhverja dagskrá á þessum degi ef þau mál sem eru á dagskrá í dag eru mikilvægari en skuldamálin tvö sem ríkisstjórnin hefur sagt að séu sín stærstu mál. Ég furða mig á þessu og ég hef ekki heyrt neina skýringu á því hvers vegna þetta er. Við óskum eftir því að fá góða umræðu um þetta vegna þess að stórar spurningar fylgja báðum þessum stóru málum.

Þetta eru 80 milljarðar úr ríkissjóði og það er eðlilegt að þingið ræði þetta mál vel og vandlega. Þess vegna er miður að ríkisstjórnin ákveði sjálf að fresta því um líklega heila viku að senda málið til nefndar vegna þess að í þessum þingsal verður alþjóðlegt kvennaþing á fimmtudag og föstudag. Svo er alveg ljóst að við erum með styttri þingdag á morgun en í dag.

Þetta er ástæðan fyrir því að okkur þykir þetta miður. Við vildum greiða fyrir því að málin færu inn í nefnd fyrir helgi. Um það hafði verið samið. Það er ríkisstjórnin sem ákveður nú annað.

Virðulegi forseti. Hér er líka sagt að fyrrverandi ríkisstjórn hafi sagt fólki að éta það sem úti frýs. Ég bið hv. þingmenn að fara vandlega yfir síðu 53 í leiðréttingarskýrslu ríkisstjórnarinnar þar sem farið er yfir þá fjármuni sem fóru til heimilanna í tíð fyrrverandi ríkisstjórnar. (Gripið fram í.)Það eru töluvert hærri upphæðir en þær sem hér er um fjallað og þeir peningar komu ekki frá heimilunum sjálfum (Gripið fram í.) eins og hér er lagt til, virðulegi forseti. (Gripið fram í: … þora bara ekki að ræða þetta.) Þetta eru staðreyndir, blaðsíða 53 í skýrslunni sem hæstv. fjármálaráðherra og hæstv. forsætisráðherra kynntu í Hörpu í nóvember sl. (Gripið fram í: Já, svo ætla …) Staðreyndirnar tala sínu máli, (Forseti hringir.) heimsmetið er miklu minna en það sem kom (Forseti hringir.) frá fyrrverandi ríkisstjórn til heimilanna í landinu.