143. löggjafarþing — 86. fundur,  1. apr. 2014.

efling tónlistarnáms.

414. mál
[14:52]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Áður en ég kem að spurningum mínum skal ég reyna að bregðast við því sem hv. þingmaður nefndi, um framtíðina í þessu máli, það er sjálfsagt að bregðast við því. Það er rétt sem hv. þingmaður nefndi að um langa hríð hefur verið unnið að nýjum lögum um tónlistarskólana og sú vinna stendur enn yfir. Augljóslega kemur ekki fram frumvarp á þessu þingi en ég er alveg sammála hv. þingmanni að fara þarf mjög gaumgæfilega yfir það hvort skynsamlegt sé að hafa núverandi verkaskiptingu áfram, hvort við þurfum ekki að setjast niður með Sambandi íslenskra sveitarfélaga og ræða þessi verkefni þannig að tryggt sé að við náum þeim markmiðum sem við setjum okkur með tónlistarnáminu, meðal annars því sem hér hefur verið til umræðu að nokkru, sem er að nemendur geti farið á milli sveitarfélaga og valið sér tónlistarskóla eftir þörfum. Ég tel mikilvægt að hafa þann sveigjanleika og það hafi í raun og veru, í það minnsta að stórum hluta, verið ein af ástæðunum fyrir því að ríkisvaldið ákvað að bæta þessum fjármunum við.

Kem ég nú að því sem ég hefði viljað spyrja hv. þingmann um: Þegar samkomulagið var gert árið 2011, var það þá ekki alveg örugglega skilningur ríkisins að þetta væru viðbótarfjármunir? Mig langar líka að spyrja: Hefði ríkisvaldið á þeim tíma gengið til þeirra samninga með sama hætti ef fyrir hefði legið sá skilningur Reykjavíkurborgar, sem hv. þingmaður gerði að umtalsefni, að þar með gæti Reykjavíkurborg dregið til baka þá fjármuni sem borgin hafði verið að veita til þessa verkefnis? Til að ítreka, hefði ríkið þá gert slíkt samkomulag ef sá skilningur hefði legið fyrir?