143. löggjafarþing — 86. fundur,  1. apr. 2014.

efling tónlistarnáms.

414. mál
[14:54]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra andsvarið og svarið. Fyrst vil ég segja um framtíðina að ég fagna því ef að minnsta kosti verkaskiptingin verður tekin til skoðunar. Ég veit ekki hvort þetta er mál sem er auðvelt að leysa, ég fór yfir það áðan. En vissulega held ég að það sem við höfum lært á þessu samkomulagi sé að þegar verkaskipting er ekki algerlega skýr þá komi upp ágreiningsmál og álitaefni.

Þá kem ég að spurningu hæstv. ráðherra. Í mínum huga og þeirra sem rituðu undir samkomulagið af hálfu ríkisins held ég að það hafi verið algerlega skýrt að um viðbótarfjármagn var að ræða. Það var að hluta til fengið með því að færa verkefni yfir til sveitarfélaga en meiri hlutinn var nýtt fé. Þetta var mikið rætt í ríkisstjórn á þeim tíma, kannski fannst ekki öllum það rétt að fara í slíka aðgerð á krepputímum en á móti kemur að tónlistarnemendur og tónlistarkennsla — ljóst var að margir skólar voru í verulegum vanda, sveitarfélögin báru sig illa þannig að það var algerlega skýrt af okkar hálfu, eins og kemur fram í titli samkomulagsins, að þetta var viðbótarfjármagn ætlað til að efla tónlistarnám en ekki bara til að koma út á sléttu ef við getum hugsað það þannig.

Þess vegna lít ég ekki svo á að með þeim skilningi hafi skapast eitthvert svigrúm til sérstaks aukaniðurskurðar hjá íslenskum sveitarfélögum, það var ekki skilningur okkar sem skrifuðum undir það samkomulag af hálfu ríkisins, enda töldum við ástæðuna fyrir því að farið var í þetta að töluvert hafði verið skorið niður í tónlistarnámi. Og það var líka vegna þeirrar eðlilegu kröfu sem hefur lengi verið uppi af hálfu bæði ýmissa sveitarfélaga og líka af hálfu tónlistarskólanna að ríkið komi meira að því skólastigi í þessari grein en það annars gerir. Það er kannski frekar í raun og veru menntapólitísk spurning þar sem ég hef verið sammála því að eðlilegt sé að ríkið komi að framhaldsstigi líka í listgreinanámi eins og öðru námi.