143. löggjafarþing — 86. fundur,  1. apr. 2014.

örnefni.

481. mál
[15:33]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvernig hann taki í þá hugmynd að gagnagrunnurinn sem frumvarpið mælir fyrir um verði undanskilinn höfundarétti. Ástæðan fyrir því að ég nefni þetta er sú að í 9. gr. höfundalaga nr. 73/1972 stendur, með leyfi forseta:

„Lög, reglugerðir, fyrirmæli stjórnvalda, dómar og önnur áþekk gögn, sem gerð eru af opinberri hálfu, njóta ekki verndar eftir lögum þessum, og ekki heldur opinberar þýðingar á slíkum gögnum.“

Markmiðið hér er auðvitað að gögn hins opinbera séu sem aðgengilegust og sem auðveldast sé að nota þau sem víðast. Mér sýnist að markmiðið með þessum gagnagrunni sé að nýta hann sem best og sem mest og þá hjálpar til þegar fólk vill nýta slík gögn að höfundaréttarmálin séu á hreinu, að leyfi til þess að nota þau liggi fyrir. Þá liggur beinast við að mínu mati að gögnin séu einfaldlega undanskilin höfundarétti. Þá þurfa ytri aðilar ekkert að pæla í þessum málum yfir höfuð, það hjálpar til, sparar þeim tíma og auðveldar þeim að tryggja lögmæti vinnu sinnar.

Góð dæmi um þetta eru Open Street Map eða Google Maps eða eitthvað því um líkt eða þá einhver önnur verkefni sem við eigum erfitt með að gera okkur í hugarlund fyrir fram. Því langar mig að spyrja hæstv. ráðherra hvort honum hugnist slík breyting eða hvaða viðhorf hann hafi til slíkrar breytingar.