143. löggjafarþing — 90. fundur,  2. apr. 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[20:38]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Hér fjöllum við um annað af heimsmetaloforðum ríkisstjórnarinnar. Það er augljóst að sitt sýnist hverjum um það sem hér er fram fært. Það má í sjálfu sér skipta þessu frumvarpi um séreignarsparnaðinn í tvennt í grófum dráttum. Í fyrsta lagi eru það úrræði sem heimila fjölskyldu að ráðstafa séreignarsparnaði inn á veðlán sem tekin eru vegna íbúðarhúsnæðis til eigin nota. Skilyrðin eru þau að lánin séu tryggð með veði í íbúðarhúsnæði og þau séu grundvöllur til útreiknings vaxtabóta, eins og sagt er. Lánsveðslánin falla hér undir ef þau uppfylla sömu skilyrði.

Hitt atriðið er svo að heimila ráðstöfun viðbótariðgjalda sem hafa safnast upp á tilteknu tímabili til kaupa á íbúðarhúsnæði til eigin nota.

Menn hafa farið mjög vítt og breitt yfir þessi mál í dag en ég verð að segja að mér finnst standa upp úr að það er séreignarstefnan sem ræður ríkjum. Ríkisstjórnin hefur ekki enn þá komið með neitt fram fyrir þá sem eru á leigumarkaði. Annaðhvort eru þeir þar að eigin vali eða vegna þess að þeir geta hreinlega ekki fjárfest.

Hér áðan sagði hæstv. fjármálaráðherra eitthvað á þá leið að honum líkaði ekki sá sósíalismi sem hefur komið fram í umræðu þeirra sem tilheyra líklega vinstri armi á Alþingi. Það er einmitt það sem skilur að, bæði með framlagningu þessa frumvarps og þess sem er næst á dagskrá. Það er einnig skortur á félagslegri greiningu í báðum þessum frumvörpum. Við sjáum ekki hvernig dreifing er á niðurfellingunni af þeirri sparnaðarráðstöfun sem hér er lögð til.

Hæstv. forsætisráðherra sagði í dag í óundirbúnum fyrirspurnum að þetta væri allt saman óbreytt frá því sem kynnt hefði verið í nóvember. Mig langar því að benda á það sem kemur fram á bls. 7, með leyfi forseta, um mat á umfangi og fjölda rétthafa:

„Í ljósi þess að nokkur frávik eru í tillögum frumvarpsins frá því sem fram kemur í skýrslu sérfræðingahóps stjórnvalda var talið nauðsynlegt að fara í nánari greiningu á skattframtölum fyrir tekjuárið 2012 áður en ráðist væri í nýtt fjárhagslegt mat á úrræðunum tveimur, þ.e. iðgjaldaúrræðinu og húsnæðissparnaðarúrræðinu.“

Forsætisráðherra hefur því annaðhvort ekki lesið þetta eða fór ekki alveg með rétt mál í óundirbúnum fyrirspurnum í dag.

Gagnrýnt hefur verið að þessi aðgerð sé tekjutengd eða hlutfallstengd og komi þeim tekjuhærri betur. Ég tek undir það því það liggur svo augljóslega fyrir að það eru þeir sem skulda meira og hafa meiri tekjur til þess að skuldsetja sig sem fá meira. Því miður er þetta sett fram þannig. Það var tekið ágætisdæmi í dag af alþingismanni sem fær helmingi meiri skattafslátt í krónum talið en t.d. ungi kennarinn eða sá sem er með meðaltekjur. Það er ekki mikill jöfnuður í því fólginn.

Þrátt fyrir að fjármálaráðherra telji að skattfrelsi sé hvetjandi vitum við vel að það eru ekki allir sem geta nýtt sér það, þ.e. þessa aðgerð. Í því samhengi kemur fram á bls. 12, eins og ég sagði í upphafi, að viðkomandi getur nýtt sér þessa séreignarleið ef hann hefur fjárfest í húsnæði sem er til búsetu. Það er einungis heimilt að greiða inn á lán sem hvíla á fasteign sem rétthafi býr í, sem hann á til búsetu. Við getum t.d. nefnt presta, einhverjir mundu segja að þeir séu í ánauð, þeir þurfa að búa í húsnæði sem ríkið á. Við þekkjum dæmi þess að prestur sem er að láta af störfum, er búinn að fjárfesta í húsnæði á þessu tímabili, fær ekki þessa fyrirgreiðslu vegna þess að honum var skylt að búa í húsnæði sem ríkið skaffaði honum. Þannig að það eru margir vinklar á þessu máli.

Auðvitað þarf að greina hópinn. Hér er talað um að í kringum 15 þúsund fjölskyldur eigi fasteign, skuldi í henni og spari ekki í séreign. Það er ákaflega mikilvægt þegar farið er í svona stórar aðgerðir að velta því fyrir sér hvers vegna þessi stóri hópur sparar ekki. Er það vegna þess að það er ekki afgangur um mánaðamótin til þess að spara eða hvað veldur?

Ég minnist þess þegar maður fer að hugleiða greiningar og söfnun gagna að á sumarþingi var keyrt með látum hér í gegn það sem kallað hefur verið Hagstofufrumvarpið. Það átti að vera undirstaða þessara skuldaleiðréttingarmála, það þurfti að afla gagna og annað því um líkt. Það hefði kannski verið hluti af því að greina þennan hóp. En það er spurning hvort eitthvað sé farið af stað í þeim efnum eða hvort hægt sé að vinna þetta allt saman í dag án þess að Hagstofan geri neitt af því sem okkur var sagt í sumar að væri nauðsynlegt.

Ég er nokkuð sannfærð um að þessi tvö mál sem eru á dagskránni í dag eru ekki það sem kjósendur ríkisstjórnarflokkanna áttu von á, að stór hluti af niðurfærslunnar yrði úr eigin vasa því þetta var ekki lagt upp þannig. Það var lagt upp þannig að hrægammasjóðir ættu að borga, vondu karlarnir í útlöndum. Það var bara sagt með því orði: hrægammasjóðir. Það var ekki talað um að ríkissjóður ætti að vera milliaðili. Að vísu talaði Sjálfstæðisflokkurinn um séreignarsparnaðinn, það verður ekki frá honum tekið, en ég held að fæstir hafi átt von á því að um það bil helmingur yrði úr eigin vasa.

Hér í dag kom fram hugleiðing um hvort séreignarkerfið væri ónýtt. Ég er ekki sammála því. Ég held að þetta sé afar góð leið. Við höfum oft rætt það sem munum eftir því þegar tekin voru sparimerki og þau gögnuðust mörgum ágætlega held ég. Svo var sú lagaheimild felld úr gildi því eins og annað var farið að misnota þetta. Hins vegar voru sparimerkin aðferð til þess að búa sér til höfuðstól til þess að eiga fyrir fjárfestingu, þau voru hugsuð til þess að viðkomandi mundi fjárfesta. Við eigum svo sem alls konar úrræði í dag. Við höfum peningamarkaðsreikninga sem eru lokaðir til ákveðins tíma og séreignarleiðina. Ég held alls ekki að hún sé ónýt. Við opnuðum á að nýta þennan sparnað í mjög þröngri stöðu en hins vegar er mikilvægt að hugleiða það að til framtíðar á þetta auðvitað ekki að vera þannig, þetta á að vera lífeyrir okkar sem við getum sparað til viðbótar við hinn hefðbundna lífeyri. Þetta á ekki að nýtast sem fjármunir dagsins í dag.

Það kemur fram á bls. 5 að ef ég til dæmis greiði lán mitt niður með séreignarsparnaði mínum, um 144 þús. á þessu ári í nóvember og 106 þús. í febrúar 2015, eftir rétt um ár, hef ég lækkað höfuðstól minn um 250 þús. kr. Hér er sagt að vextirnir gætu verið í kringum 4 þús. kr. Það er ekki tekið dæmi um hversu mikið ráðstöfunartekjur aukast umfram þessar 4 þús. kr. Það hefði verið áhugavert ef eitthvert dæmi hefði verið tekið um það.

Svo má líka velta því fyrir sér varðandi auknar ráðstöfunartekjur að hér er ekki einungis hvatt til þess að taka út sparnað sinn til næstu ára heldur er líka hvatt til viðbótarsparnaðar upp á 2%. Það dregur væntanlega úr ráðstöfunartekjum. Vissulega felst í því skattafsláttur ef þetta úrræði er nýtt en ég er ekki viss um að raunveruleg aukning á ráðstöfunarfé verði eins mikil eins og af er látið.

Svo kemur líka fram á bls. 10 að ekki er gert ráð fyrir því að aukin umsvif vegna ráðstöfunartekna komi fram af neinu viti fyrr en í kringum 2016, 2017. Það er ekki eins og þetta sé komið inn í hagkerfi okkar á næsta ári sem einhverju nemur.

Þessu til viðbótar má segja um niðurgreiðslu eða innborgun á láni eins og hér hefur komið fram í dag að ef fólk velur að nýta sér hana fer hún fyrst inn á skuld á jöfnunarreikningi. Ég er ekki heldur viss um að fólk hafi almennt átt von á því að það yrði þannig.

Við vinstri græn höfum talað fyrir jöfnun í gegnum skattkerfið og höfum viljað nýta vaxtabæturnar til þess og gerðum það á síðasta kjörtímabili. Auðvitað hefðum við kosið að sjá eitthvað slíkt í þessu og skuldafrumvarpinu sem hér er undir, þau hefðu verið nýtt til að greiða niður skuldir ríkissjóðs og styrkja innviði í framhaldinu og svo í gegnum vaxtabætur til heimilanna. Ég er sannfærð um að það hefði komið tekjuminni heimilum miklu betur.

Hér hefur aðeins verið rætt um sveitarfélögin og þær tekjur sem þau verða af og ríkið reyndar líka til framtíðar. Það er líka vert að muna að ríkið greiðir alltaf þau 14% sem sveitarfélögin eiga; þrátt fyrir að innheimta það ekki að fullu í ríkiskassann stendur ríkið sveitarfélögunum skil. Ríkið borgar þar af leiðandi hugsanlega meira en hér er gert ráð fyrir.

Bankaskatturinn sem á að fjármagna þessar aðgerðir er ekki framtíðarskattur eins og við vitum og þegar landinn verður búinn að nýta sér séreignarsparnaðinn í mörg ár fram í tímann er ljóst að tekjustofnar ríkisins verða þá verulega miklu veikari. Það er rökstutt á bls. 9 að þetta eru töluverðar fjárhæðir.

Hér kemur fram á bls. 10 að tryggingagjald hækki vegna aukinna framlaga frá launagreiðendum og það má velta því fyrir sér vegna þess að það hefur verið boðað að lækka eigi tryggingagjaldið. Það var lækkað örlítið síðast og Sjálfstæðisflokkurinn hefur talað fyrir því að lækka það enn frekar. Það er því ekki bara um að ræða tekjutap í framtíðinni vegna þessara aðgerða fyrir ríki og sveitarfélög sem ráðherra sagði að næmi um 16–22 milljörðum. Svo má ekki gleyma kostnaðinum sem hlýst af þessari framkvæmd. Hér eru dregnar upp sviðsmyndir þar sem fjárhæðir eru á bilinu 54–74 milljarðar og 30% skatthlutfall, þannig fær ráðherrann þessa tölu út. En miðað við verðlag á þessu ári eru þetta á bilinu 18–25 milljarðar fyrir ríkið og 9–12 milljarðar fyrir sveitarfélögin.

Það er talað um að veltan eigi að aukast eins og ég sagði áðan. Ég er ekki alveg sannfærð um að veltan verði eins hröð og hér kemur fram og tel líka að hún verði seinna á kjörtímabilinu, komi ekki inn í hagkerfið með þessum hætti.

Þetta er svo sem ekki alvont frumvarp. Skattfrjáls húsnæðissparnaður til handa ungu fólki sem er að byrja búskap eða vill leggja fyrir eða eitthvað slíkt og getur nýtt sér skattleysishlutann til að kaupa sér sína fyrstu íbúð er auðvitað af hinu góða. Ungt fólk hefur tækifæri til að leggja síðan fyrir fyrir framtíðina. Við sem komin erum á miðjan aldur gerum það kannski síður þar sem styttist í eftirlaunaárin og það kæmi til með að rýra kjör okkar á efri árum.