143. löggjafarþing — 91. fundur,  7. apr. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[18:07]
Horfa

Frosti Sigurjónsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Guðmundi Steingrímssyni fyrir þessa spurningu. Hún er nokkuð góð. Þeir sem eru með evruna lentu ekki í því í sinni kreppu að höfuðstólar lána hækkuðu. Það er rétt. Verðgildi eigna lækkaði samt, fólk missti vinnuna og atvinnuleysi varð meira og það var engu að síður fjármagnsflótti frá þessum ríkjum sem lentu í mestu skakkaföllunum sem leiddi til dýpkandi kreppu og meira atvinnuleysis. Hann leiddi líka til þess að bara launafólkið, það fólk sem gat ekki forðað sér úr landi eða fundið sér vinnu annars staðar, þurfti að bera tjónið eitt á meðan efnafólkið, fólkið sem átti eignir og laust fé, gat fært það yfir í önnur hagkerfi þar sem betur áraði og ávaxtað sitt lausafé þar, evrurnar.

Þegar fór að skorta peninga í bönkunum þurftu ríkissjóður og skattgreiðendurnir sem eftir sátu að fjármagna og gangast í ábyrgð fyrir þeim lántökum hjá Evrópubankanum til að fylla bankann aftur af evrum þegar allar evrurnar voru að hverfa úr landi. Það er ekki sérstaklega (Forseti hringir.) falleg mynd.