143. löggjafarþing — 91. fundur,  7. apr. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[20:24]
Horfa

Edward H. Huijbens (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir efnisríka og innihaldsmikla ræðu. Ég hjó eftir því að hv. þingmaður fagnaði því að hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra talaði fyrir frumvarpinu. Ég velti því hins vegar fyrir mér hvort hv. þingmanni finnist eðlilegt að sá ráðherra tali fyrir málinu þar sem ljóst er hvaða ráðherra átti helst frumkvæði að þessari hugmynd og leiddi þá umræðu sem varð til þess að stjórnin myndaðist á sínum tíma, þ.e. hæstv. forsætisráðherra. Fagnar hv. þingmaður þessu í því samhengi?

Í umræðunni hefur þessum aðgerðum verið líkt við dulbúna skattalækkun. Getur hv. þingmaður tekið undir þau orð og þá greiningu?

Í þriðja lagi langar mig að spyrja: Ef bankaskatturinn reynist lögmætur — hann nefndi dæmi um í hvað ætti að ráðstafa þeim tekjum en nefndi ekki velferðarkerfið — gæti komið til greina að nota helminginn í að greiða niður skuldir og hinn helminginn til að efla velferðarkerfið sem svo sannarlega á undir högg að sækja?