143. löggjafarþing — 91. fundur,  7. apr. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[22:21]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég hef alltaf hugsað með mér, varðandi þetta mál, að ég muni sennilega ýta á gula takkann og vera ekkert sérstaklega á móti þessu máli þótt ég sé vissulega ekkert sérstaklega með því heldur og hafi aldrei verið. Ég tók eftir því í kosningabaráttunni, þeirri fyrstu sem ég tók þátt í, að það var bara einn flokkur sem taldi svigrúm til að fara í þessar aðgerðir og var það hv. Framsóknarflokkur. (Gripið fram í.) Ég hef aldrei verið viss um það að þetta mundi ganga og er ekki viss enn þá.

Ég hef ekki jafn mikið út á útfærsluna að setja og ég hefði haldið enda hafa menn greinilega tekið sér tíma í að útfæra þetta eftir bestu getu og er það vel. Ég vil þá sérstaklega nefna 6. gr. frumvarpsins sem varðar gagnaöflun, það er eitthvað sem við píratar höfum alltaf miklar áhyggjur af. En ég sé ekki betur en að sú grein sé temmilega vel unnin, það má aðeins bæta í hana, það má sjálfsagt gera það í nefndarstarfi, það varðar eyðingu gagna og að skýrt sé tekið fram að upplýst samþykki umsækjanda þurfi til að safna þessum gögnum. Þó skal ég alveg viðurkenna að þar stendur, með leyfi forseta:

„Ríkisskattstjóra skal heimilt að afla nauðsynlegra upplýsinga við afgreiðslu umsóknar.“

Það hjálpar mér til að sætta mig við þessa grein, það er þá augljóst að það þarf afgreiðslu umsóknar til að þessum upplýsingum sé safnað. Sömuleiðis hef ég séð skjáskot af þeim hugbúnaði sem ætlað er að verði notaður og þar kemur fram að viðkomandi umsækjandi þarf að samþykkja slíka upplýsingasöfnun og upplýsinganotkun.

Að því sögðu held ég að það mætti alveg skýra þessa lagagrein og ég sé ekki fram á að það verði neitt mál að gera það. Það þykir mér fínt. Mér finnst sömuleiðis að í greininni sjálfri mætti taka fram að umsækjendur þurfi að samþykkja þetta í hugbúnaðinum þótt það sé ekki tekið fram. Sumir mundu kannski segja að ekki þyrfti að taka það fram, en mér finnst eiginlega að taka þurfi það fram, svona að fenginni reynslu.

Aðeins yfir í hugmyndafræðilegan þátt frumvarpsins. Stefna Pírata í þessum málaflokki hefur alltaf verið mjög einföld, hún er að tryggja réttarstöðu neytenda og hefur hv. 10. þm. Reykv. s., Jón Þór Ólafsson, staðið sig prýðilega í því að mínu mati og sömuleiðis hæstv. innanríkisráðherra í kjölfarið, sem er ágætt. Og eins og ég segi þá var ég aldrei sérstaklega á móti þessu máli. En ég verð að viðurkenna að því meira sem ég hlusta á ræður hér, því meira sem ég les, því verr er mér við þetta mál. Það er alfarið af hugmyndafræðilegum og efnahagslegum ástæðum.

Nú vil ég árétta að hér tala ég bara fyrir sjálfan mig. Mér finnst 18% verðbólguskot ekki vera neinn forsendubrestur. Mér finnst 20%, mér finnst 25, 30%, verðbólguskot ekki vera forsendubrestur. Mér fannst það ekki þá, mér fannst það ekki 2001 þegar ég keypti mér mína eigin íbúð. Ég gerði fullkomlega ráð fyrir því að ég byggi vissulega á Íslandi og á Íslandi væru af og til verðbólguskot, það virðist vera reglan frekar en undantekningin á nokkurra áratuga fresti, á tveggja til þriggja áratuga fresti. Þegar tekið er lán til 25–40 ára gerir maður ráð fyrir því að eitthvað fari einhvern tímann úrskeiðis. En það er forsendan, er það ekki? Það er forsendan sem brást á Íslandi að hér færi ekkert úrskeiðis, að hér væri efnahagurinn svo ofboðslega sérstakur íslenskur efnahagur sem væri sterkur og djarfur og svo framvegis, gæti ekki hrunið. Sú forsenda er röng, hún var jafn röng árið 2007 og hún var 2009. Hún er röng, hefur alltaf verið röng og mun alltaf verða röng. Hagkerfi eru þess eðlis að þau eiga það til að hrynja, sérstaklega þegar um er að ræða glapræðislega (Gripið fram í.) óábyrga hagstjórn eins og hér var á árunum 2003–2009 sérstaklega, (Gripið fram í.)en þar áður líka. (Gripið fram í.) Já, sérstaklega og óábyrg peningastefna eins og hv. þm. Frosti Sigurjónsson bendir réttilega á. (FSigurj: Við getum lagað það.) Sjáum til hvort hægt sé að laga það, ekkert sérlega eins og menn segja …(Gripið fram í.)

Ég sé engan forsendubrest. Ég á íbúð. Ég er með verðtryggt lán. Ég hef reynt að reikna það og mistekist ef út í það er farið. Ég veit allt um það. Þetta er allt mjög skrýtið kerfi sem við erum með og það er fullt af vandamálum við það, bæði peningakerfið, hagstjórnina, lánafyrirkomulagið o.s.frv., fullt af vandamálum sem okkur ber að leysa. En ég veit ekki um eina einustu forsendu sem hefur brostið, ekki eina. Er ekki verðbólga á Íslandi? Hrynja ekki hagkerfi? Jú, virðulegi forseti. Jú, það var enginn forsendubrestur hér. Þetta er tískuorð sem er notað af stjórnmálaflokkum til að afla sér fylgis. Það er það einfalt.

Aðalástæðan fyrir því að ég hallast að því að vera á móti málinu þó að ég sé opinn fyrir því að láta sannfærast í hina áttina, nær henni. Helsta ástæðan fyrir því að ég hallast að því að vera á móti málinu er sú að við glímum ekki bara við skuldavandi heimila eins og míns heimilis, heldur skuldavanda ríkisins, skuldavanda þjóðarinnar allrar. Við öll, virðulegi forseti, skuldum 1.500 milljarða kr., hvort sem okkur líkar betur eða verr. Það er bein afleiðing hrunsins 2008. Það er bönkunum að kenna og okkur sjálfum, á meðan ég man, sem þjóð; það var allri þjóðinni að kenna nema hv. þm. Svandísi Svavarsdóttur.

Ég tel að það eigi að vera forgangsverkefni númer eitt þegar kemur að því að laga skuldavanda á Íslandi. Án ríkissjóðs getum við ekki talað um hluti eins og samneyslu og spítala og lögreglu og réttarríki o.s.frv. Við höfum ekkert að gera við ríki ef við höfum ekki ríkissjóð. Skuldastaða ríkissjóðs er þannig núna að á hverju ári borgum við vexti, ekki greiðslur heldur vexti, sem nemur þeim upphæðum sem við tölum um hér, sem er heimsmet. Þannig að þetta fer allt verr og verr í mig því meira sem ég pæli í því. Skuldavandi Íslands er skuldavandi ríkissjóðs. Við eigum að einbeita okkur að honum.

Til að svara þessu hefur komið fram kenning hér í ræðum og víðar, kenning sem ég er ekki mjög trúaður á. En ef ég skil hana rétt er hún svo að með þessum aðgerðum öðlist heimilin svigrúm til að auka einkaneyslu. Einhvern veginn í ósköpunum á sú einkaneysla að auka tekjur ríkissjóðs án þess að valda of mikilli verðbólgu. Ég sé ekki hvernig það á að ganga vegna þess að því meiri sem einkaneyslan er því meiri verður verðbólgan og því minni sem hún er því minni verða auknar skatttekjur. Ég sé því ekki að það geti í raun gengið með góðu.

Gott og vel. Kenningin er svona, ef ég skil hana rétt: Að einkaneyslan aukist, þó að við fáum verðbólgu, alla vega teljandi verðbólgu — það muni koma efnahagnum aftur í lag eða laga hann nógu mikið til að þannig sé hægt að taka á skuldavanda ríkisins.

Eins og komið hefur fram er þessi kenning óprófuð, hún er nýmæli, hér er allt voða spes. Ég er ekki mjög trúaður á hana, en ég get bara vonað, virðulegi forseti, að sú ótrúverðuga kenning standist.