143. löggjafarþing — 92. fundur,  8. apr. 2014.

störf þingsins.

[13:48]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég bar í gær upp þá spurningu til hæstv. sjávarútvegsráðherra hve mikinn byggðakvóta fiskvinnslan Vísir hefði fengið frá því að hún kom á staði eins og Þingeyri, Djúpavog og Húsavík.

Nú hefur komið fram í fréttum að Atvinnuþróunarfélag Vestfjarða hefur kannað þetta hvað Þingeyri varðar og hefur viðkomandi fyrirtæki fengið 1.300 tonn af byggðakvóta frá árinu 2000 sem er metinn á allt að 200 milljónir í rekstrarlegan stuðning. Ef fjárfest hefði verið í kvóta árið 2000 hefði ígildi fjárfestingarinnar verið að upphæð 150–240 millj. kr. Þetta er dágóð upphæð. Þessir aðilar hafa verið í rekstri á þessum stöðum og hafa haft mikinn hag af því. Það hefur ekki verið neitt gustukaverk að vera á þessum stöðum. Þeir hafa ekki verið að gera þetta bara til að styðja við þessar byggðir eða hjálpa þessu fólki heldur hefur þetta verið rekið á viðskiptalegum forsendum og menn haft hag af því.

Ég vil kalla stjórnvöld til ábyrgðar. Leikreglurnar eru samdar á Alþingi. Við búum við kvótakerfið eins og það er og það hefur reynst þrautinni þyngra að hreyfa eitthvað við því. Ég veit ekki hvað þarf til til að menn sjái að byggðum eins og við erum að tala um hérna, Þingeyri, Djúpavogi, Flateyri áður og fleiri byggðarlögum, blæðir. Hagræðing eins og hún er rekin í skjóli þessarar hagræðingar kvótakerfisins er hagræðing dauðans fyrir þessar byggðir. Viljum við það gagnvart þessum byggðum? Er þá ekki heiðarlegra að Alþingi sem löggjafi segi það skýrt og klárt að það telji ekki grundvöll fyrir rekstri þessara byggðarlaga sem hafa byggt upp alla sína afkomu (Forseti hringir.) á sjávarútvegi í gegnum árin? Annars kemur ríkið núna að þessu og gerir gagngerar breytingar með sértækum aðgerðum því að þessar byggðir þola enga bið.