143. löggjafarþing — 92. fundur,  8. apr. 2014.

störf þingsins.

[14:02]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Kristjáni L. Möller fyrir fyrirspurnina. Í aðdraganda kosninga töluðu framsóknarmenn um að leiðrétta verðtryggðar húsnæðisskuldir heimilanna. Nú eru tvö frumvörp þess efnis komin inn í þingið, frumvarp um beina niðurfærslu verðtryggðra húsnæðisskulda og frumvarp þar sem heimilt er að nýta séreignarsparnað með skattafslætti frá ríkinu til niðurgreiðslu verðtryggðra húsnæðislána og einnig inn á húsnæðissparnað.

Umfang þessara aðgerða er um 150 milljarðar kr. ef við tökum þær saman og nær til um 100 þús. heimila. 60% aðgerðanna ná til heimila með allt að 670 þús. kr. í mánaðartekjur fyrir skatt. Við getum horft á dæmi þar sem um er að ræða hjón sem hafa rúmlega 300 þús. kr. í mánaðartekjur fyrir skatt.

Mikilvægt er, sama hvaða skoðun fólk hefur á þessum skuldaleiðréttingarfrumvörpum, að við horfum á heildarmyndina. Þau frumvörp sem hér um ræðir eru eingöngu einn liður af tíu í aðgerðaáætlun ríkisstjórnar Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins í því að koma til móts við heimilin í landinu. Þessi aðgerð er með jafnræði í huga þannig að komið er til móts við þann hóp sem hefur legið utan garðs í málefnum er snúa að skuldamálum heimilanna. Við erum að koma til móts við þann hóp sem hefur farið í fjármálastofnanir eða aðrar stofnanir á síðasta kjörtímabili og komið að lokuðum dyrum eða sagt hefur verið við það fólk að það geti bætt við sig vinnu eða sent annan aðilann úr landi til að reyna að bjarga sér. Við viljum koma til móts við þann hóp. Þetta er ein aðgerð af tíu liða aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar og mikil vinna (Forseti hringir.) á eftir að koma inn á borð til okkar í þinginu þar sem við þurfum að vinna áfram að málefnum heimilanna.