143. löggjafarþing — 92. fundur,  8. apr. 2014.

skýrsla Alþjóðamálastofnunar um aðildarviðræður við ESB.

[15:12]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Frú forseti. Ég vil þakka fyrir ágætlega málefnalega umræðu í dag. Það hefur svo sem verið farið langt út fyrir efnið en það var við því að búast að málið yrði sett í aðeins stærra samhengi.

Það er ágætt að byrja á því að nefna að almennt viljum við eiga í alþjóðasamvinnu til að hafa af því einhvern ávinning og ef við komumst að þeirri niðurstöðu að það sé engan ávinning að hafa af samstarfinu, þegar við fáum það á tilfinninguna að sóst sé eftir dýpra samstarfi samstarfsins vegna, eins og mér finnst vera gerast mjög í Evrópusambandinu um þessar mundir, er rík ástæða til að staldra við og segja: Þessi frekari krafa um aukið samstarf, frekara framsal valds í þágu samstarfsins sjálfs, þegar farið er að ganga svo á rétt þjóðríkjanna viljum við ekki vera með. Þetta er akkúrat að gerast út um allt í Evrópusambandinu. Þetta er að gerast í Bretlandi og þetta er að gerast í fjölmörgum öðrum ríkjum. Ríkin kjósa að draga úr samstarfinu og rætt er um það í einstaka löndum að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu til að endurheimta völd vegna þess að framsal valdsins til Brussel skilaði ekki þeim ávinningi sem að var stefnt. Þetta er sérstaklega mikilvægt að hafa í huga vegna þess að innan Evrópusambandsins eru stórir aðilar, leikendur á sviðinu, að ræða um mun dýpri samruna og það dugar ekkert að nefna í því sambandi að það hafi komið fram í máli Stefáns Más að Evrópusambandið beri ekki í dag einkenni sambandsríkis. Það er alveg skýrt ef menn leita uppi ummæli Angelu Merkel og annarra stórra leiðtoga í Evrópusambandinu (Gripið fram í.) að þeir telja alveg skýrt [Háreysti í þingsal.] að það eigi að dýpka samstarfið í Evrópusambandinu. Þetta er alveg skýrt. (Gripið fram í.) Þetta ætti engum að dyljast. (Forseti hringir.)

(Forseti (SilG): Ró í þingsalnum.)

Það hefur verið athyglisvert að fylgjast með ummælum eins og þeim að skýrslan sem við erum að ræða sýni að við gætum tekið evru upp fljótt. Mér finnst ég hafa heyrt þetta áður. Mér finnst ég hafa heyrt frá árinu 2009 (Gripið fram í.) að það yrði mjög fljótlega sem við mundum taka upp evru eftir að hafa gengið í Evrópusambandið. (Gripið fram í.) Þegar við ræddum um það í aðdraganda kosninganna á þeim tíma að við Íslendingar gætum átt þann valkost að taka upp annan gjaldmiðil án inngöngu í Evrópusambandið vorum við að benda á að það væri mikil gerjun í gjaldmiðilsmálum í Evrópusambandinu, sem var hárrétt, og menn þyrftu ekki að gefa frá sér sjálfstæðið til að gera breytingar í peninga- og gjaldmiðilsmálum. Það var punkturinn sem við komum á framfæri fyrir kosningarnar 2009.

Menn segja: Við vitum ekki hvað Evrópusambandið er án viðræðna. Auðvitað vitum við hvað Evrópusambandið er. Það er birt í lögum. Það er birt í sáttmálum. Við vitum nákvæmlega hvað Evrópusambandið er. Getum við fengið minni háttar aðlaganir, tímafresti o.s.frv.? Eflaust. En það er ekkert í þessari skýrslu sem við erum að ræða í dag sem segir að við munum fá varanlegar undanþágur frá sambandslöggjöfinni og það er akkúrat það sem Stefán Már hefur skrifað um, það hefur engin þjóð fengið varanlegar undanþágur frá sambandslöggjöfinni á sviði landbúnaðar- og fiskveiðimála. Engin. (Gripið fram í: Fjölmargar sérlausnir … Engin? Fjölmargar.) Engin þjóð hefur fengið varanlegar undanþágur frá sambandslöggjöfinni. (ÁPÁ: Þetta er bara ekki rétt.) Hins vegar hefur Evrópusambandið breytt löggjöf sinni til að koma til móts við þarfir einstakra ríkja eins og Möltudæmið er til vitnis um, en þeirri löggjöf er hægt að breyta aftur einhliða af Evrópusambandsins hálfu þannig að það eru engar slíkar varanlegar undanþágur til. (Gripið fram í.) Noregur er auðvitað annað dæmi um ríki sem fór fram á fjölmargar varanlegar undanþágur en fékk enga. Það er nú staðan. Ég kemst því miður ekki í djúpa umræðu um höftin, en það stendur ekkert annað til en að eiga gott samstarf hér á Alþingi um haftaafnámið (Forseti hringir.) og til þess höfum við sett upp sérstakan vettvang, til að eiga pólitískt samráð. Mér finnst menn hafa í umræðunni í dag gert allt of mikið úr ávinningi þess að eiga samtal við Evrópusambandið um það, enda var þar aldrei neitt að hafa nema tæknilega aðstoð.