143. löggjafarþing — 92. fundur,  8. apr. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[15:34]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Jú, þetta er eitt af þeim atriðum sem ég hnaut líka um í þessu frumvarpi, um þessi óljósu atriði sem eru meðal margra sem ég nefndi sem verkefni efnahags- og viðskiptanefndar að fara yfir. Hún sendir frumvarpið út til umsagna og gestir munu koma. Þar á meðal vona ég að ýmsir geri það og ég bendi á að hver og einn landsmaður getur sent inn umsögn.

Í dæmi eins og hv. þingmaður gerir að umtalsefni er einstaklingur bókstaflega sviptur rétti sem hann hefur eignast á árunum 2008–2009 vegna þess að hann hefur ef til vill neyðst til að flytja úr landi til að sækja sér vinnu. Ég stórefa, virðulegi forseti, að þetta standist jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar. Að því leytinu til er ég algjörlega sammála hv. þingmanni. Þetta er ein af mörgum spurningum alveg eins og það eru líka spurningar gagnvart þeim sem nú eru orðnir 67 ára og eldri og eru komnir af vinnumarkaði en voru ekki nema kannski 61 eða 62 ára og voru með skuldir á þessum viðmiðunarárum.

Því miður vakna við lestur á þessu flókna frumvarpi mjög margar spurningar. Ég gæti nefnt eitt atriði sem ég tel vera framsal á skattlagningarvaldi Alþingis til hæstv. ráðherra til reglugerðarsetningar. Ég leyfi mér að efast um að það ákvæði standist.