143. löggjafarþing — 92. fundur,  8. apr. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[16:06]
Horfa

Frosti Sigurjónsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Valgerði Bjarnadóttur fyrir ræðu hennar. Það voru margar spurningar og vangaveltur sem komu fram í þeirri ræðu. Hún talaði um óvissuferð ríkisstjórnarinnar, að leiðréttingin væri óvissuferð, en sú leiðrétting sem við ræðum hér, um lækkun höfuðstóls verðtryggðra íbúðalána, er nákvæmlega það sem talað var um í nóvember og í aðdraganda kosninga. Það er akkúrat engin óvissa í kringum það mál. Það er meira að segja búið að samþykkja núna á fjárlögum ársins 2014 að verja 20 milljörðum í aðgerðina á þessu ári þannig að margt í kringum þessar aðgerðir er mjög vel þekkt.

Auðvitað er útfærslan mjög flókin og margt sem þarf að hafa í huga þar en mér finnst mjög lítið gert úr starfi allra þeirra sem komið hafa að því að undirbúa þetta ágæta frumvarp að kalla þetta óvissuferð. Það hefur þvert á móti verið unnið ákaflega vandað og gott starf í mörgum ráðuneytum og með miklu samráði við lánastofnanir og reynt að gera þetta með mjög vönduðum hætti. Engu að síður er gott að eiga hér umræðu um málið og varpa fram spurningum. Ég er sannfærður um að tekið verður tillit til ábendinga í efnahags- og viðskiptanefnd sem koma frá hv. þingmönnum.

Hv. þingmaður gerði líka að umræðuefni að aðgerðirnar nýttust aðallega stórefnafólki, en það er ekki alveg eins og ég skil málið, áætlað er að flest heimili muni fá höfuðstólslækkun sem er á bilinu 500 þús. kr. til 1,5 millj. kr. Það er þak við 4 millj. kr. þannig að mikið efnafólk lendir í þakinu. Rúmlega 60% af leiðréttingunni rennur til heimila sem eru með tekjur samanlagt 660 þús. kr. Það eru eins og tveir kennarar í heimili. 44% renna til heimila sem eru með tekjur samanlagt undir 500 þús. kr. á mánuði. Megnið af þessari leiðréttingu fer til fólks (Forseti hringir.) sem ekki er hálaunafólk.