143. löggjafarþing — 92. fundur,  8. apr. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[16:08]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég frábið mér það að ég kunni ekki að meta vinnu fólks sem unnið hefur að þessu máli og ég trúi því að allir hafi unnið að því af sínum besta vilja. Við erum hér í pólitískri umræðu og þó að mér finnist frumvörp sem stjórnmálamenn leggja fram ekki góð og fólk hefur unnið fyrir þá þýðir ekki að ég sé einhvern veginn að varpa rýrð á það fólk, alls ekki. Ég bara frábið mér slíkar — æ, ég veit það ekki, aðdróttanir, það er ekki einu sinni það, svona tal er bara leiðinlegt, virðulegi forseti.

Hv. þingmaður gerir athugasemdir við það að ég tali hér um óvissuferð, þá ætla ég að segja að það stendur nú hérna í samantekt úr frumvarpinu sjálfu, í d-lið, Samantekt, á bls. 14:

„Efnahagsleg áhrif aðgerða til lækkunar skulda heimilanna eru um margt mjög óljós og óvissan mikil …“

Það bendir nú til að þarna sé einhver óvissa. Fólk getur ekki enn þá reiknað út hvað það fær vegna þess að verðbólguviðmiðið er ekki klárt. Og það er óvissa vegna þess að fólk veit ekki hversu mikið það fær. Eftir því sem mér skilst verður heildarsumman ákveðin eftir að ljóst er hvað margir sækja um. Sumir halda hins vegar að upphæðin geti hækkað, en eftir því sem þingmaðurinn segir eiga 20 milljarðar að fara í þetta mínus einhver kostnaður, eitthvað undir 20 milljörðum. Þá er það óvissa fyrir fólkið af því að það veit ekki hvað það fær fyrr en í desember.

Svo kem ég að öðru síðar.