143. löggjafarþing — 92. fundur,  8. apr. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[17:16]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni svörin. Já, það er nefnilega þannig að í frumvarpinu, þ.e. eins og það kemur fyrir, eru leigjendur í rauninni ekki teknir með inn í þennan svokallaða forsendubrest, sem að sönnu var hjá sumum. Það eru líklega þúsundir leigjenda á markaðnum þar sem leigan er bundin vísitölu, nákvæmlega sömu vísitölunni og á að fara að leiðrétta gagnvart. Það má svo sem velta fyrir sér hvort leiðréttingin eigi þá að ganga til leigjendanna sjálfra eða hvort hún eigi að ganga til þeirra sem eru með íbúðalánin þar á bak við, eða ef félög eru með þetta, hvort hún eigi að ganga til þeirra. Reyndar er tekið sérstaklega fram að lögaðilar sem eiga húsnæði eru teknir út fyrir sviga í frumvarpinu.

Ég sé að hér eru nokkrir nefndarmenn úr efnahags- og viðskiptanefnd. Það er mjög mikilvægt að mínu viti að nefndin taki á þessum þáttum. Talað er um að 15–20% Íslendinga séu á leigumarkaði og oft hefur verið talað um að flestir sem eru á leigumarkaði séu þar tímabundið en það er í raun og sann að verða valkostur fyrir fólk að vera á leigumarkaði. Sumt fólk vill það hreinlega, lítur á það sem hluta af sínum lífsstíl og finnst það bara fínt. Það er vont ef skilaboðin verða núna, sem sagt í tengslum við þessa leiðréttingu og frumvarpið: Nei, það borgar sig miklu frekar, alltaf, að vera í eigin húsnæði, vegna þess að þá áttu alltaf miklu meiri séns á að fá einhverja aðstoð frá ríkinu. Þingmaðurinn talaði um uppeldislegt hlutverk okkar sem stofnunar, og það eru kannski ekki góð uppeldisleg skilaboð.