143. löggjafarþing — 92. fundur,  8. apr. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[21:52]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er út af fyrir sig ánægjulegt að umfang aðgerðanna er svipað og aðrir stjórnmálaflokkar lofuðu í aðdraganda síðustu kosninga. En það breytir því ekki að svik Framsóknarflokksins við það fólk sem leitaði til þeirra, margt í nauðum sínum, eru býsna mikil og það er ljótt að svíkja fólk í nauð. Það er kannski sérstaklega alvarlegt fyrir þau heimili sem fóru í gegnum úrræði, sannanlega vegna mikilla greiðsluerfiðleika á síðasta kjörtímabili. Hjá þeim voru auðvitað skapaðar væntingar um að kæmist Framsóknarflokkurinn til valda yrði aðhafst í þeirra vanda en flokkurinn tekur sérstaka ákvörðun um að undanskilja einmitt þessi fimm þúsund heimili og hann segir því fólki það ekki fyrr en eftir kosningar, eftir að það er búið að kjósa flokkinn. Það er ljótur leikur.