143. löggjafarþing — 92. fundur,  8. apr. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[22:58]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það sem fyrrverandi ríkisstjórn gerði með lánsveðshópinn, úr því að talið berst að því að ríkisvæða skuldir, var að ríkisvæða að mig minnir skuldbindingu hjá ríkissjóði upp á 12 milljarða, ef mér skjöplast ekki. Aðgerðin átti að kosta það og þá upphæð átti að taka úr lífeyrissjóðnum. Það átti að færast á ríkisreikning.

Það er talað um að sú aðgerð sem þessi ríkisstjórn er að boða hér með leiðréttingu á verðtryggðum lánum kosti mikið og sé öll á kostnað ríkisins. Það er hér með leiðrétt.

Það er athyglisvert að þingmaðurinn treystir sér ekki til að útskýra fyrir þingmönnum sem sitja í þingsalnum hvernig vinstri flokkarnir lögðu sig fram við það á síðasta kjörtímabili að skuldsetja hvern einasta einstakling á landinu og ætluðu sér að gera það með Icesave-skuldaklafanum. Það var ekkert verið að hugsa um hag landsins eða landsmanna enda varð okkur til happs að þessi mál fóru tvisvar í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þjóðin hafnaði því og við höfðum fullan sigur fyrir EFTA-dómstólnum. Hvernig værum við stödd hefði ríkisstjórnin fengið sínu framgengt með Icesave-málin á síðasta kjörtímabili? Hvar værum við þá stödd? Hverjir væru þá fátækir og hverjir fengju of mikið út úr þessari skuldaleiðréttingu?

Nei, hv. þm. Svandís Svavarsdóttir sem var ráðherra í síðustu ríkisstjórn kann líklega best að koma skuldum yfir á herðar einstaklinga því að hér finnur hún þessu frumvarpi allt til foráttu og finnst ófært að það sé verið að leiðrétta skuldir heimilanna. Það er mjög alvarlegt mál hvernig málflutningurinn birtist við umræðu þessa máls.

Það skal tekið fram að lokum að ég hef flutt mína ræðu í þessu máli. (Gripið fram í.) Hún var full af bjartsýni, von og kjarki fyrir íslenska þjóð því að ég veit að við getum þetta saman (Forseti hringir.) ef við fáum frið til að koma okkar stefnumálum á framfæri fyrir fyrrverandi ríkisstjórn sem kunni það eitt að skuldsetja okkur.