143. löggjafarþing — 94. fundur,  9. apr. 2014.

fjögurra ára samgönguáætlun 2013--2016.

495. mál
[19:12]
Horfa

Edward H. Huijbens (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka andsvarið og spurninguna. Bættar samgöngur efla vissulega samskipti og eru eitt af því besta sem getur komið fyrir okkur. Hins vegar verður að gæta þess að ganga ekki of langt í því. Ef menn bregðast til að mynda alltaf við aukinni umferð með því að breikka vegina þá endar þetta eiginlega í tómri vitleysu, vegirnir verða óendanlega breiðir. Ég veit til þess að í Kaupmannahöfn hættu þeir þessu hreinlega, þeir hættu að fjölga akreinum og buðu hins vegar upp á fjölbreyttari samgöngumáta. Það er það sem ég tel svo mikilvægt að jafna í raun hlutskipti ólíkra samgöngumáta, að allir sitji við sama borð, hvort sem menn kjósa að fara gangandi, hjólandi, á rafskutlu eða á Ford 350T, eða hvað hann heitir nú þessi risatrukkur sem svo margir eru á.

Hv. þingmaður spurði hvernig ég sæi fyrir mér lausn á því máli sem er fyrir austan. Já, þegar stórt er spurt — það er í fyrsta lagi að láta nægjanlegt fé fylgja með eins og ég nefndi. Í annan stað þarf í þessu sérstaka tilfelli að ná lendingu með Alcoa. Tilfellið er að Alcoa, álverið á Reyðarfirði, heldur eiginlega uppi almenningssamgöngum og það er ágætt vegna þess að það er öllum til hagsbóta. Þannig þarf að ná samlegð með Alcoa á Reyðarfirði sem er þá til eflingar svæðinu. Með nákvæmlega sama hætti og ferðaþjónusta og gestir geta eflt almenningssamgöngur þá er það í þessu tilviki Alcoa sem kannski yrði svolítið ballestin alla vega framan af þangað til allt fer að fyllast af ferðafólki á Austurlandi.