143. löggjafarþing — 95. fundur,  10. apr. 2014.

staðan á leigumarkaði.

[10:32]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vildi beina orðum mínum til hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra og gera að umtalsefni stöðuna á leigumarkaði. Eins og allir vita er alvarleg staða á leigumarkaði, verðið hátt og mikil eftirspurn eftir leiguhúsnæði. Sveitarfélög eru að grípa inn í vítt og breitt. Við sjáum mjög metnaðarfull áform í Reykjavík þar sem borgaryfirvöld stefna að uppbyggingu 2.500–3.000 leiguíbúða á næstu árum. Til að þetta gangi verða stjórnvöld að spila með og þau mega í það minnsta ekki gera leigjendur að annars flokks borgurum í landinu, setja þá skör lægra en þá sem eiga eigin húsnæði. Það er hins vegar ríkisstjórnin einmitt að gera núna. Í skuldaútfærslunni sem við erum nýbúin að sjá leggur ríkisstjórnin lykkju á leið sína til að tryggja að fólk í leiguhúsnæði sitji uppi með verðtryggða leigu en fái henni ekki aflétt með sama hætti og þeir sem skulda verðtryggð lán í eigin húsnæði fá lækkun á sínum verðtryggðu skuldum. Fyrir því eru engin efnisrök færð fram.

Við höfum heldur ekkert heyrt frá hæstv. ráðherra um það hvort til standi að halda áfram með það ferli sem hafið var í tíð síðustu ríkisstjórnar að hækka húsaleigubætur og búa til eitt kerfi húsnæðisstuðnings, óháð því hvort fólk á húsnæði eða leigir það. Ég vil þess vegna spyrja hæstv. ráðherra: Er búið að leggja á hilluna allar hugmyndir um að leigumarkaðurinn verði raunverulegur valkostur til lengri tíma? Ef ekki, hvernig samrýmist það því markmiði að gera leigjendur að annars flokks borgurum í eigin landi eins og gert er í skuldaútfærslunum og eins og er auðvitað enn þá í núverandi stuðningskerfi? Stefnir ráðherra að því að fylgja áfram eftir hugmyndum um eitt kerfi húsnæðisstuðnings fyrir alla landsmenn, óháð eignaformi? Er ráðherra tilbúinn að beita sér fyrir breytingum á skuldaniðurfellingahugmyndunum á þann veg að leigjendur fái líka (Forseti hringir.) lækkun verðtryggðrar leigu á sama hátt og kaupendur fá lækkun verðtryggðra lána?