143. löggjafarþing — 95. fundur,  10. apr. 2014.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

511. mál
[22:03]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þegar maður fær tillögu eins og hér er, að fara með málið í atvinnumálanefnd, eins og ég kom að í ræðu minni, þá spyr maður: Af hverju? Er einhver dulin ástæða? Er einhver skýring á því að farið er í krók, leitað eftir ákvæðum í þingsköpum til að geta teygt þetta þannig, mál sem var afgreitt af umhverfisnefnd en á nú að fara til atvinnuveganefndar?

Maður spyr: Hver er þessi dulda ástæða sem ekki er gefin upp? Er það vegna þess að hæstv. ráðherra treystir ekki hv. umhverfis- og samgöngunefnd? Það er að vísu sú nefnd sem náði sátt varðandi náttúruverndarlögin, er það að skila sér þarna? Maður verður að leyfa sér að hugsa svona vegna þess að mér finnst þetta svolítil stríðshanskaafgreiðsla, að verið sé að kasta stríðshanskanum í stað þess að leita að sátt og friði, í máli sem ég hefði haldið að undir venjulegum kringumstæðum færi sinn eðlilega veg í gegnum þingið og fengi vandaða umfjöllun og yrði afgreitt faglega.

Ég heyrði ekki á innleggi hv. þingmanns, formanns Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, og reyndar ekki heldur á fyrrverandi umhverfisráðherra, hv. þm. Svandísi Svavarsdóttur, annað en að þannig hefðu menn komið að þessari umræðu upphaflega. En nú er allt í einu búið að gera þetta tortryggilegt og ómögulegt þannig að ég styð að þetta fari til umhverfis- og samgöngunefndar.

En af hverju er verið að kalla fram atkvæðagreiðslu um þetta og beita þá meirihlutavaldi í staðinn fyrir að reyna að ná sáttum um hvert málið fer? Ég tek undir með hv. þingmanni að við getum talað um að forræðið sé hjá umhverfis- og samgöngunefnd og menn geti svo leitað álits hjá öðrum aðilum. En þetta er svolítið prinsippmál hvernig við ætlum að stýra þinginu hvað þetta varðar.