143. löggjafarþing — 95. fundur,  10. apr. 2014.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

511. mál
[23:52]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Varðandi vísan málsins sem ég hef verið að hugleiða betur er það þannig að hæstv. umhverfisráðherra heitir ekki aðeins umhverfisráðherra heldur heitir hann umhverfis- og auðlindaráðherra og ráðuneytið heitir ekki aðeins umhverfisráðuneyti heldur umhverfis- og auðlindaráðuneyti. Þetta er vel útskýrt í gögnum sem fylgdu stjórnarúrskurðinum um verkaskiptingu innan Stjórnarráðsins þegar nafnbreytingin varð á ráðuneytinu og því var falið skilgreint hlutverk á sviði auðlindamála, í sjálfu sér hvort sem um er að ræða verndun auðlindanna eða sjálfbæra nýtingu þeirra. Það var búið til sérstakt samstarfsfyrirkomulag t.d. milli atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins og umhverfis- og auðlindaráðuneytisins vegna hlutverks ráðuneytisins á sviði auðlindamála. Eftir því sem maður rifjar þetta betur upp og fer yfir það er náttúrlega sú hugmynd að vísa þessu eitthvert annað en í umhverfis- og samgöngunefnd gersamlega fráleit. Ég tel það hafið yfir allan málefnalegan vafa að það standist ekki, einfaldlega í ljósi þess hvernig um þetta er búið og að þingsköpin og verkaskipting hér speglist á við það sem er í Stjórnarráðinu. (Forseti hringir.) Ég held að forseti hljóti að sjá að það þarf að fara betur yfir þetta mál.