143. löggjafarþing — 96. fundur,  11. apr. 2014.

skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis um rannsókn á aðdraganda og orsökum erfiðleika og falls sparisjóðanna.

[14:23]
Horfa

Vilhjálmur Bjarnason (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um rannsókn á aðdraganda og orsökum erfiðleika og falls sparisjóðanna. Þetta er langur titill, stór skýrsla, um 2 þús. síður, og það ber að þakka þeim sem að þessari vinnu hafa staðið. Hér er saman komið mikið efni sem er raðað saman með nokkuð skipulegum hætti.

Sú gagnrýni hefur helst verið á skýrsluna að hún hafi kostað peninga. Það er því miður þannig að það sem vel er gert kostar. Þær þrjár skýrslur sem Alþingi hefur látið taka saman um orsakir að falli bankanna, orsakir að falli Íbúðalánasjóðs og orsakir að falli sparisjóðanna hafa verið dýrar, en ég mun hér eftir sem hingað til verja gerð þessara skýrslna. Ég tel að þessum fjármunum hafi verið vel varið því að ef þetta hefði ekki verið gert hefðum við deilt um það ævina út hvað hefði gerst. Ég endurtek þakkir mínar til nefndarmanna og starfsmanna nefndarinnar.

Það er þyngra en tárum taki að sjá hvernig sparisjóðirnir hafa farið. Ég á ýmsar æskuminningar um einn af þeim sparisjóðum sem fóru illa í þessu ferli. Ég var alinn upp við það að forustumenn sparisjóðanna væru miklir heiðursmenn. Þetta voru miklir menn í sínu byggðarlagi, hver um sig, og reyndu að bæta sitt byggðarlag. Þeir gerðu sér grein fyrir því að þetta voru litlar fjármálastofnanir og máttu við litlu en þeir töldu þær nauðsynlegar. Kannski voru þær það á sínum tíma en þegar atvinnulíf varð fjölbreyttara voru þessar stofnanir ekki í standi til að standa að uppbyggingu til dæmis bátaflota og frystihúsa.

Þessar stofnanir litu á sig sem stofnanir í heimahéraði og ættu að sinna verkefnum þar. Síðan gerist það í einu vetfangi að þessar stofnanir líta nánast á sig sem seðlabanka í héraði, þær eigi að sjá til þess að þar sé öflugt atvinnulíf, þær eigi að vernda atvinnulíf. Þá byrjar brjálæðið. Það er talað um að þetta hafi átt að vera stofnanir fyrir héraðið en í þessari skýrslu kemur í ljós að þessar stofnanir veita til dæmis ekki meira til menningarmála en aðrar fjármálastofnanir sem gerðu það í formi auglýsinga, styrktarsamninga o.s.frv. Þó situr eftir ein menningarhöll á Dalvík sem varð til með gjöf Sparisjóðs Svarfdæla en stofnunin hvarf í hafið þrátt fyrir þann ímyndaða hagnað sem þar varð.

Ég ætla að nefna hér eitt mikilvægt atriði, það að þegar búið er að lána öllum í héraði og lítill sparisjóður vill verða banki er farið út fyrir héraðið. Það er meira að segja farið úr landi og þá verður til dálítið sem heitir hrakval. Þessar stofnanir fengu nýtt aðgengi að lausafé í gegnum lántökur í útlöndum og það varð til hrakval. Hvað er það? Hrakval er það þegar lánað er viðskiptavinum sem áttu ekki kost á lánum annars staðar af einhverri ástæðu. Það kann að vera ástæðan fyrir því að þeir sem tóku lánin voru ekki borgunarmenn.

Það eru greinilegar vísbendingar um að hraður vöxtur sparisjóðanna, þeir uxu úr 10% markaðshlutdeild á fjármálamarkaði í 25%, hafi verið á grundvelli hrakvals. Til hvers var vaxið ef eignirnar sem komu í eignasafnið voru bara hrak? Það er nefnilega dálítið dýrt að vaxa hratt, það er dýrt að vilja verða mikill og fá mikilmennskubrjálæði. Sparisjóðirnir hafa öll einkenni mikilmennskubrjálæðis í því sem gerðist á þeim tíma sem er undir.

Mönnum hefur orðið tíðrætt um það hvort lagaumhverfið hafi haft úrslitaáhrif, það að heimila sölu á stofnfjárbréfum. Stofnfjárbréf eru lögverndaður fjármálagerningur og það er ekki hægt að banna sölu á honum. Ég vil meina að hér hafi ekki átt sér stað það sem heitir afreglun, ég leyfi mér, með leyfi hæstv. forseta, að nota enska heitið sem er „deregulation“. Hér var mikil regluvæðing og hún var mönnum algjörlega ný. Til voru tilmæli Fjármálaeftirlits sem voru virt, sem og tilmæli bankaeftirlits, það voru til ýmis form af upplýsingum sem fjármálafyrirtæki þurftu að skila bankaeftirliti. Þetta var allt virt. (Gripið fram í.) Með nýrri löggjöf upp úr 1990 erum við í rauninni búin að ganga nokkuð langt.

Þá koma inn algjörlega ný hugtök sem eru mæling á styrkleika fjármálastofnana, þ.e. mæling á eigin fé fjármálastofnana, kennd við Basel, kennd við CAD, svo ég sletti ensku einu sinni enn, með leyfi virðulegs forseta, Capital Adequacy Directive. Þetta eru sem sagt reglur um eigið fé fjármálastofnana. Þessar eiginfjárreglur eru tiltölulega einfaldar. Í þeim er gert ráð fyrir því að aðeins sé hægt að telja eigið fé í fjármálastofnun einu sinni, það sé ekki hægt að búa til fjármálastofnun með því að lána og taka að veði vegna þess að þetta átti allt að þurrkast út með því að það sem var keypt í annarri fjármálastofnun kom til frádráttar á hinni. Þetta eru tiltölulega flókin fræði fyrir óinnvígða.

Það sem verra var er að ég tel að eftirlitsaðilar og endurskoðendur hafi bara ekki fylgt þessum reglum eins og vera ber. Þá kemur að eftirlitinu, að fyrsta eftirlitsþrepið er stjórn fyrirtækis. Svo virðist sem stjórnir hafi verið mjög meðvirkar hjá stjórnendum stofnananna. Í endurskoðuninni er mér algjörlega hulin ráðgáta hvernig margir þeirra veikleika sem upp komu að lokum voru aldrei opinberaðir. Það þarf enginn maður að segja mér að það sem hér gerðist hafi gerst árin 2008 og 2009, það gerist hægt og bítandi frá því að sparisjóðirnir auka eigið fé sitt úr tiltölulega litlu upp í nokkra tugi milljarða, en það var því miður aldrei neitt að baki þessu. Menn greina til dæmis ekki eðli á flutningi á áhættu í fjármálastofnunum um þessar eiginfjárreglur, þegar verið er að lána út á eigið fé eru menn að taka á sig eigið fé þeirrar stofnunar sem lánað er út á. Þetta er algjörlega vanvirt í stofnuninni.

Einhvern veginn gerist þetta. Það virðist verða upplausn í þessu bandalagi, Sambandi íslenskra sparisjóða, einhvern tímann um síðustu aldamót, það verða til svokallaðir Existu-sjóðir og hinir sjóðirnir. Existu-sjóðirnir eru dálítið merkilegt bandalag, þar kemur Kaupþing banki inn og lánar SPRON til þess að lána sparisjóðum til þess að kaupa í Kistu til þess að kaupa í Existu til þess að kaupa hlutabréf í Kaupþingi, þ.e. búa til eigið fé. Þetta lítur dálítið flókið út en þarna er verið að notfæra sér það að Kista var ekki talið fjármálafyrirtæki. Það mátti ekki innleysa þennan hagnað, það mátti ekki innleysa hagnaðinn af þessum Existu-bréfum því að þá gæti verðið fallið og þá erum við nánast komin að því sem kalla mætti markaðsmisnotkun.

Verði er haldið uppi því að ef verðið á Kaupþingi félli félli líka verðið í Existu sem leiddi til þess að það yrði gífurlegt tap í stofnununum og það gerðist árin 2007 og 2008. Árið 2007 er SPRON gert að hlutafélagi og það liggja fyrir tiltölulega litlar upplýsingar þegar SPRON er breytt úr sparisjóði, sem er sjálfseignarstofnunarform, yfir í hlutafélag. Það liggur fyrir verðmat, þ.e. niðurstöðutala er birt en loksins þegar stofnfjáreigendur fá að sjá hana er hún einföld þríliða í fjórum, fimm línum, lítil greining á því sem þarna gerist. Þegar rýnt er í reikninginn hjá SPRON árið 2007 kemur í ljós að þarna er mikið tap af kjarnarekstri en í upphafi árs 2008 er tap af kjarnastarfsemi, eftir því sem mér reiknast til, um 440 milljarðar, tap af samstæðu 8 milljarðar, tap af rekstri SPRON sjálfs 10 milljarðar. Í fréttatilkynningunni kemur hins vegar fram að það sé traustur rekstur fram undan.

Hvað gerist á næsta tímabili? Það tapast 900 milljónir af kjarnastarfsemi fyrir utan lækkun á verðbréfum sem er mestanpart í þessu Existu-Kistu-Kaupþingsdæmi. Þá spyr ég: Hvað voru menn að hugsa þarna? Það eru aldrei til neinir peningar, í þessum fjármálastofnunum eru greidd tiltölulega há laun og jafnvel árangurstengd laun vegna þessarar hækkunar á verðbréfum, en það koma aldrei peningar inn í dæmið. Þessi rekstur á kjarnastarfsemi sem ég er að lýsa hérna er beint útflæði, það koma aldrei inn peningar. Það koma inn þessi hlutabréf sem urðu að engu og ég ætla að segja hér og nú að lærdómurinn af þessu sé sá að fjármálastofnanir eru samfélagslega mikilvægar stofnanir.

Ég hef ágætan starfsferil í fjármálastofnunum, í bönkum þar sem ég starfaði með heiðursmönnum sem litu á það sem sitt hlutverk að lána einstaklingum og fyrirtækjum. Þeir litu svo á að þeir bæru töluverða ábyrgð. Ég þekkti ýmsa stjórnendur annarra banka líka og þeir litu einnig á sig sem eiginlega gæslumenn þessa fjár. Með hugtakinu fé án hirðis eru menn farnir að líta á stofnanirnar sem einhvers konar andlag til ráns. Það gerðist hér og ég vona að menn virði reglur um fjármálastofnanir. Einhver kann að segja: Lítið er fallegt. En fjármálastofnanir hafa ekki efni á að vera litlar, þær verða ekki litlar, þær þurfa ákveðið regluverk og eftirlit, þær þurfa ákveðna stærð og til þess að ná þeirri stærð verða þær því miður ekki sparisjóðir.

Það er fylgni milli þessa félagsforms, sparisjóða og kaupfélaga. Kaupfélögin eru horfin, sparisjóðirnir eru horfnir. (Gripið fram í.) Er til Kaupfélag Skagfirðinga? (Gripið fram í.) Já, ég heyri á hv. þm. Þorsteini Sæmundssyni að það er til kaupfélag. (Gripið fram í.) Já, við skulum sleppa því.

Hvað um það, ég held að þetta félagsform eigi erfitt uppdráttar en ég játa hér og nú að 2 þús. síður urðu mér ofviða í lestri. Ég þekkti nokkuð til málsins áður og gat kynnt mér þetta með þeim hætti að ég get talað um þetta hér.

Ég endurtek þakkir. Ég vona að þessi skýrsla verði til þess að læra af og að hún verði lesin.

Virðulegi forseti. Ég hef lokið máli mínu.