143. löggjafarþing — 106. fundur,  6. maí 2014.

gjaldskrárlækkanir o.fl.

315. mál
[19:23]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Þegar kemur að bensíninu þá er klárlega fákeppnismarkaður og lækkunin þar er smávægileg. Sagan hefur sýnt okkur að hún skilar sér ekki inn í verðið, hún skilar sér a.m.k. ekki fljótt inn í verðið en hún gerir það á endanum.

Varðandi áfengið þá þekki ég ekki nógu vel til þar en hv. þingmaður fræðir mig um að þar sé birgðastaða, þar séu birgðir sem keyptar hafi verið inn á einhverju ákveðnu verði með einhverjum ákveðnum gjöldum og verði þá líklega seldar þannig nema Alþingi fyrirskipi eitthvað annað. Það gæti náttúrlega gert það en ég tel ekki að það skili sér strax, ég veit það þó ekki. Kannski að hv. þingmaður geti uppfrætt mig um hvernig það hefur verið hingað til.

Í frumvarpstextanum segir að lauslega metið gæti vísitala neysluverðs lækkað um 0,08%, verði frumvarpið að lögum, svo fremi sem áhrifunum verði að öllu leyti velt út í verðlagið. Þeim verður klárlega ekki velt út í verðlagið strax. En kjarasamningarnir, þetta loforð ríkisstjórnarinnar sem tryggði að menn náðu samningum, getur hv. þingmaður frætt mig um hvenær afleiðingarnar munu skila sér út í verðlagið? Mun það ekki gerast fyrr en smávægileg lækkun verður á bensíni á fákeppnismarkaði og svo lækkun á áfengi og tóbaki?