143. löggjafarþing — 107. fundur,  9. maí 2014.

gjaldskrárlækkanir o.fl.

315. mál
[11:18]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti Mig langar bara að svara vinkonu minni, hv. þm. Ragnheiði Ríkharðsdóttur, að að sjálfsögðu hefur forseti þingsins dagskrárvaldið og honum er í lófa lagið, eins og þingmaðurinn veit, að færa mál til eins og honum sýnist. Það hefði verið hægt að færa málið fram fyrir ef vilji hefði verið til þess, þetta er bara liður í því að vera ekkert að reyna að plata landsmenn með svonalöguðu. Að sjálfsögðu hefur forsetinn dagskrárvaldið og getur fært mál fram fyrir.

Ef við tölum um þetta mál, um að draga aðildarviðræður til baka, það vissu allir að það mál færi í málþóf, það vissu það allir. Að sjálfsögðu fer slíkt mál í málþóf. Hvernig komast Danir hjá svoleiðis vandræðum? Jú, þeir eru með í stjórnarskránni, og það er hægt að setja það í þingsköp á Íslandi, að 1/3 hluti þingmanna geti vísað málum í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þá losnum við við svona vandamál, út af því að þá mun enginn þora að leggja fram mál hér á þingi sem hefur kannski stjórnarmeirihluta á bak við sig en fer klárlega í berhögg við vilja mikils meiri hluta landsmanna.