143. löggjafarþing — 107. fundur,  9. maí 2014.

vextir og verðtrygging.

402. mál
[11:46]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. efnahags- og viðskiptanefnd fyrir það frumkvæði að flytja þetta mál. Ég held að það sé þjóðþrifamál eins og hv. þm. Árni Páll Árnason hefur rakið ágætlega.

Ég vil nota tækifærið hér og benda hv. þingmönnum á að hér opnar nefndin lögin um vexti og verðtrygginguna. Fyrir hv. þingmenn Willum Þór Þórsson, Elsu Láru Arnardóttur, Frosta Sigurjónsson og aðra forustumenn í Framsóknarflokknum og aðra þá þingmenn Framsóknarflokksins sem hafa fylgst með þessari umræðu er náttúrlega mikilvægt að gera sér grein fyrir því að hér er verið að opna lögin um vexti og verðtryggingu. Ef það er afstaða þingmannanna að afnema eigi verðtryggingu af lánum til einstaklinga er löggjöfin nú opin. (Gripið fram í.) Menn geta lagt fram tillögur varðandi þá löggjöf ef þeir vilja ná fram þeim breytingum á íslenskri löggjöf að afnema verðtryggingu. Þeim er ekkert að vanbúnaði í því efni. Það er einfaldlega atriði sem hverjum þingmanni er frjálst að gera, þ.e. að flytja breytingartillögur við fram komin frumvörp um þá þætti sem þeir telja máli skipta að breyta í viðkomandi lögum. Það þarf þá ekki að vísa á ríkisstjórnina eða einhverja aðra aðila um að uppfylla kosningaloforð sín. Hér eru lögin opin og ef menn vilja afnema verðtrygginguna er tækifæri til þess hér og nú.