143. löggjafarþing — 108. fundur,  12. maí 2014.

barnageðheilbrigðismál á Norðurlandi.

[10:51]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Varðandi þetta mál er alveg augljóst að vandamálið stafar fyrst og fremst af því að við erum með tiltölulega fáa einstaklinga á sviði barna- og unglingageðlækninga í landinu. Sennilega eru þeir um sex. Það er rétt hjá hv. þingmanni að eftirspurnin eftir þessari þjónustu er til muna meiri en það fagmenntaða fólk sem við höfum á þessu sviði annar og erfiðleikar eru við að ná því til starfa utan höfuðborgarsvæðisins, nema ef vera skyldi að það ágæta fólk sæki þá til vinnu í lausum stundum erlendis, sem ég veit dæmi um.

Í þessu tiltekna máli er flækjustigið allverulega hátt, það er augljóst. Það togast á bæði faglegir hagsmunir, einstaklingsbundnir og svo stofnanastrúktúrinn líka og óþarfi er að velta sér mikið upp úr því. Ég hef beint þeim tilmælum til forsvarsmanna þessarar þjónustu, þ.e. til forstjóra Landspítalans og forstjóra Sjúkrahússins á Akureyri, að leita allra þeirra leiða sem færar eru til að greiða úr þeim þjónustuþætti fyrir börn og unglinga á Norður- og Austurlandi. Eftir því sem mér er síðast sagt frá er í burðarliðnum ákveðið samkomulag sem ég veit ekki nákvæmlega hvernig kemur til með að líta út en ég veit þó til þess að þar hafa þeir kostir verið skoðaðir sem hv. þingmaður nefndi áðan, hvort hægt væri að reka þetta áfram undir BUGL o.s.frv. Fyrirmæli mín til þeirra ágætu forsvarsmanna þessara tveggja stofnana sem eiga að hafa yfirstjórn á þessum málum voru þau að skoða alla kosti sem í boði eru en ég veit á þessari stundu ekki nákvæmlega (Forseti hringir.) hvernig það stendur.