143. löggjafarþing — 109. fundur,  13. maí 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[15:08]
Horfa

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. [Kliður í þingsal.] (Forseti hringir.)

(Forseti (SilG): Ræðumaður hefur orðið.)

Virðulegur forseti. Hér er greinilega orðinn nokkur taugatitringur í ranni stjórnarliða og einhverra hluta vegna hafa þeir ekki áhuga á að ræða krúnudjásnin á málaskrá ríkisstjórnarinnar sem eru þessi stóru mál sem allt hefur snúist um hingað til.

Hv. þingmaður er formaður fjárlaganefndar Alþingis og ber þar með ábyrgð á fjárreiðum. Hún gerði sjálf kröfur hér í haust um sársaukafullan niðurskurð hér og hvar sem leiddi m.a. til uppsagna fólks vítt og breitt í stjórnkerfinu. Ríkissjóður er ekki ofhaldinn, Ísland er meðal skuldugustu ríkja í Evrópu, og það er af þeirri ástæðu sem við sjáum eftir skatttekjum og við teljum mjög mikilvægt að færð séu fram efnisleg rök fyrir skatteftirgjöf. Það eru ekki efnisleg rök að það standi einhver þjóðarnauðsyn til þess að beita opinberu fé til þess að borga vel stæðu fólki fyrir að leggja fyrir sem hvort eð er getur lagt fyrir. Það eru engin sterk efnisleg rök fyrir því í íslensku samfélagi í dag. Það eru hins vegar efnisrök fyrir því að bæta tjón þeirra sem urðu fyrir raunverulegum forsendubresti, sem hafa upplifað það að fasteignaverð hefur ekki staðið undir því sem lán hafa hækkað um. En flokkur hv. þingmanns hefur forðast það eins og heitan eldinn að afmarka forsendubrestinn, hann hefur forðast það eins og heitan eldinn að afmarka aðgerðirnar við þá sem hafa raunverulega orðið fyrir tjóni. (Gripið fram í: Já.) Í staðinn er stefnt að því að eyða peningum og verja peningum til fólks sem hefur jafnvel grætt á þróun síðustu ára.