143. löggjafarþing — 109. fundur,  13. maí 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[19:03]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir andsvarið. Hv. þingmaður setur hér hlutina inn í stóra samhengið og ég held að það hljóti að vera verkefni okkar á hverjum tíma. Ef við horfum á stóra samhengið þá hafa, eins og ég fór yfir í ræðu minni, allar aðgerðir verið þannig að tekjulægstu hóparnir hafa verið skildir eftir og menn hafa bara grímulaust sagt að verið sé að gera það, eins og þegar kemur að lífeyrisþegunum. Fjármálaráðherra hefur sagt það úr þessum stóli að það hafi verið gert vegna þess að fráfarandi ríkisstjórn hafi bara séð nægilega vel um þann hóp, sem er bara ekki rétt. Hún gerði heilmikið en alls ekki nóg, alls ekki. Við vorum bara rétt lögð af stað í þann leiðangur að styðja betur við þá tekjulægstu og hefðum viljað hafa tíma og fjármuni til að ganga enn þá lengra í því efni.

En síðan horfum við á þessa aðgerð. Svo kemur næsta stóra aðgerð og hvað gera menn þá? Jú, þeir skilja aftur eftir þennan hóp, lífeyrisþega, námsmenn, þá tekjulægstu. Og síðan tala formenn ríkisstjórnarflokkanna, ekki síður formaður Sjálfstæðisflokksins, um skattalækkanir. Hvaða aðferðafræði eru menn að tala um þar? Þar eru menn að tala um að einfalda skattkerfið. Einföldun á skattkerfi hljómar bara í eyrum okkar sem höfum skoðað það, sem skattalækkun hjá þeim sem hæstar hafa tekjurnar. Það er bara þannig. Nú ætla ég að skora á þá framsóknarmenn sem hér sitja, og ég veit að þeir hafa félagshyggjutaug, að taka þeirri áskorun okkar að hugsa nú um lágtekjufólkið í næstu aðgerð, sem verða þá væntanlega einhverjar skattalækkanir ef marka má orð formanns Sjálfstæðisflokksins. Þá verður það ekki liðið að tekjulægstu hóparnir verði skildir eftir og þá er eðlilegast að gera eins og hv. þingmaður nefnir hér, að horfa á persónuafsláttinn þannig að hlutfallslega mest fari til þeirra sem hafa lægstu tekjurnar.