143. löggjafarþing — 109. fundur,  13. maí 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[19:13]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er svo sem ágætt að við höfum alla vega svörtustu og björtustu myndina fyrir framan okkur. Við höfum hana þó, eins og hv. þingmaður nefnir, og vitum að þetta getur orðið mest 24 milljarðar, miðað við svörtustu spá Íbúðalánasjóðs (FSigurj: Það er mjög ólíklegt.)Mjög ólíklegt, segir formaður nefndarinnar, en það er þeirra spá. Svo höfum við í hinum endanum 5,2 milljarða. Við erum með eitthvert span þarna á milli en þetta eru engu að síður mjög margir milljarðar af skattfé og þetta mun hafa töluverð áhrif á stöðu ríkissjóðs fyrir utan tekjutapið og annað sem mun koma til sem kostnaður á ríkissjóð. Þetta er dálítið langt frá því sem menn töluðu um til dæmis í kosningabaráttunni um hvernig fjármagna átti þessar skuldaniðurfellingar, frá því að vera með fé frá hrægömmum sem skulduðu okkur peninga fyrir að hafa komið hér öllu á vonarvöl og yfir í að nú er ríkið (Forseti hringir.) farið að bera af þessu verulegan kostnað. Það er þó ágætt að það skuli koma skýrt fram í þessari umræðu.