143. löggjafarþing — 109. fundur,  13. maí 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[21:55]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta efh.- og viðskn. (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, ég hef áhyggjur af þessu. Ég hef engin efnisrök séð fyrir mismununinni og t.d. hvað varðar húsnæðissamvinnufélögin og leigufélögin hefur bara verið vísað til hinnar misráðnu þingsályktunartillögu frá síðasta sumri sem rökstuðnings fyrir því að þessir hópar eigi ekki að falla þarna undir en ekki til neins annars.

Það er kannski hægt að halda því fram hvað leigjendur varðar að þeir sem eru í leigu borgi leigu til einhvers fyrirtækis og það sé ekki eins auðvelt að sérgreina skuld þeirra og þeirra sem eiga eigið húsnæði. Ég held að þar sé kannski efnisleg forsenda til mismununar. En þegar horft er á húsnæðissamvinnufélögin er sú efnislega mismununarforsenda ekki fyrir hendi eins og ég rakti ítarlega í ræðu minni áðan. Og hvað varðar það tilvik sem hv. þingmaður nefnir um fólk sem er svo ógæfusamt að hafa flutt af landi brott sé ég ekki efnisrökin fyrir því að það eigi að vera hlunnfarið um leiðréttingu vegna þess að það er ekki verið að leiðrétta stöðu fólks í dag. Það er verið að leiðrétta stöðu (Forseti hringir.) sem var uppi 2008 og 2009, og þeir sem eiga þann rétt hljóta að eiga hann óháð því hvar þeir búa í dag.