143. löggjafarþing — 109. fundur,  13. maí 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[23:03]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta efh.- og viðskn. (Guðmundur Steingrímsson) (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka fyrir spurninguna. Ég fór yfir það í ræðu minni og fer yfir það í nefndaráliti mínu að eftir fall fjármálakerfisins og fall gjaldmiðilsins hefði verið fullkomið glapræði að gera ekki neitt í skuldamálum heimilanna. Ég eins og margir aðrir þingmenn fór hér upp í ræðustól og kallaði eftir aðgerðum, þetta var mál málanna á þeim tíma. Síðan tók ég þátt í því sem meðlimur í félags- og tryggingamálanefnd að hanna margs konar aðgerðir almennar og sértækar. Niðurfelling skulda niður í 110% af matsvirði eignar var almenn aðgerð að mínu viti, ekkert annað. Hún lækkaði hlutfall þeirra sem glímdu við neikvæða eiginfjárstöðu um einhver 16% ef ekki meira, þannig að ýmislegt var gert. Ég fór yfir það í ræðu minni að um 250 milljarðar hefðu verið settir í afskriftir höfuðstóls lána frá þessum tíma.

Það sem vakti athygli mína hins vegar á þessum tíma (Forseti hringir.) var að sama hvað gert var, (Forseti hringir.) var alltaf verið að breyta víglínunni eftir á (Forseti hringir.) og kalla eftir meira. Núna segi ég: (Forseti hringir.) Það er ekki þörf á frekari (Forseti hringir.) aðgerðum hvað þetta varðar. Nú er þörf á (Forseti hringir.) góðri hagstjórn og ábyrgð í ríkisfjármálum.