143. löggjafarþing — 111. fundur,  14. maí 2014.

fækkun svartfugls.

466. mál
[12:00]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka þessa ágætu fyrirspurn. Fækkun í stofnum svartfugla hefur staðið yfir í um áratug og lítill bati virðist vera sýnilegur á ástandinu víða við landið. Þessi fækkun hefur hins vegar ekki einvörðungu verið hér við land, heldur hefur hún átt sér stað um mestallt norðanvert Atlantshafið. Þessar breytingar eru ekki að fullu útskýrðar. Breytingarnar eru þó meðal annars taldar tengjast loftslagsbreytingum, norðlægar tegundir færa sig norðar, og eins eru breytingar í lífríki og fæðuframboði taldar hafa mikil áhrif. Þannig, eins og hér var kallað fram, verpir haftyrðill ekki lengur norður í Grímsey og lundanum gengur afar illa suður í Vestmannaeyjum svo að dæmi séu tekin. Séu þessar breytingar að miklu leyti drifnar áfram af hnattrænum loftslagsbreytingum sem hafa áhrif í lífríkið, sem við þekkjum, og ástand sjávar er ekki víst að mikið sé raunverulega hægt að gera í beinum aðgerðum til að stemma stigu við þessari fækkun eins og spurt er að. Það er hins vegar mikilvægt eins og með aðrar breytingar vegna hnattrænnar hlýnunar að við reynum að fylgjast vel með þessum stofnum og vakta breytingarnar.

Þar má nefna að ráðuneytið og ráðherra beitti sér fyrir því að Veiðikortasjóður úthlutaði verulegum hluta fjármuna sinna til verkefna í þeim anda nú í vetur, 3,6 milljónir fóru í lundaverkefni undir stjórn Náttúrustofu Suðurlands. Verkefnið snýr að vöktun, viðkomu, fæðu, líftölu og könnun á vetrarstöðvum lundastofnsins. Tæpum 4 milljónum var úthlutað úr Veiðikortasjóði í verkefni um stofnþróun bjargfugla á vegum Háskóla Íslands og um 3,5 milljónum í verkefni á vegum þriggja náttúrustofa sem fjalla um farhætti og vetrarstöðvar íslenskra svartfugla. Mikilvægt er að fá haldbærar upplýsingar um hvar svartfuglinn heldur sig á veturna en þær upplýsingar hafa ekki verið til. Það er líka mjög brýnt að reynt sé að hafa góða yfirsýn yfir ástand þessara fuglastofna og bera það saman milli ára og eru því öll þessi verkefni mikilvæg lóð á þær vogarskálar.

Jafnframt þarf að huga að því hvort einhverjar athafnir manna valdi verulegum áhrifum. Til að mynda hefur veiði á lunda verið mjög takmörkuð í Vestmannaeyjum að undanförnu án þess að það hafi kannski skipt miklu fyrir breytingar á stofninum. Eins má nefna að nefnd sem hv. þingmaður minntist á, og skipaði sem þáverandi ráðherra, skilaði tillögum til ráðuneytisins vorið 2011 og lagði til ýmsar dálítið róttækar aðgerðir til að stýra veiðum betur. Þar kunna, þrátt fyrir að vera umdeildar sumar hverjar, að vera tillögur sem hægt væri að beita til að styrkja stöðu þessara tegunda. Til dæmis er áhugavert að leita leiða til að draga úr áhrifum netaveiða á þessa fuglastofna. Velta má fyrir sér hvort hægt væri að draga úr veiðum á teistu, sem er langminnsti svartfuglastofninn, og eins þarf að vinna frekar að veiðistjórn lundans. Allt eru þetta mikilvæg atriði.

Eins og staðan er nú er aðalatriðið að við reynum að hafa sem besta yfirsýn yfir stöðu þessara mikilvægu tegunda.