143. löggjafarþing — 115. fundur,  15. maí 2014.

frestun verkfallsaðgerða Félags íslenskra atvinnuflugmanna gegn Icelandair ehf.

600. mál
[14:07]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Að setja lög á verkfallsaðgerðir einkaaðila er ekki einföld eða auðveld ákvörðun en því miður er hún óhjákvæmileg í þessu tilfelli og því miður líka það eina ábyrga í stöðunni. Á undanförnum árum hefur gríðarlega miklum opinberum fjármunum og fé fyrirtækja í greininni verið varið til markaðssóknar til að kynna Ísland sem áfangastað til að efla ferðaþjónustu á Íslandi.

Við höfum lagt í miklar fjárfestingar, það hefur tekið langan tíma að byggja greinina upp en við skulum gæta að því að þetta getur horfið á örskotsstundu. Svona verkfallsaðgerðir og sá efnahagslegi skaði sem af þeim getur hlotist er einfaldlega af þeirri stærðargráðu að við getum ekki setið aðgerðalaus og horft upp á það gerast.

Ég tek hins vegar undir hvatningu allra þeirra sem hér hafa talað til deiluaðila, það er þeirra að ljúka þessu máli og ég hvet þá (Forseti hringir.) til að axla ábyrgð og ljúka samningagerð. Það er það rétta í stöðunni og ég vona svo sannarlega að það geti orðið fljótt í kjölfar þessarar lagasetningar.