143. löggjafarþing — 116. fundur,  15. maí 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[15:49]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir andsvarið og ræðuna sem hann flutti í gær.

Mig langar að spyrja hv. þingmann aðeins út í það sem hann sagði, að við ættum ekki að tala um 110%-leiðina. Það vill svo til að u.þ.b. 700 heimili sem fengu 110%-leiðréttinguna á sínum tíma, þetta voru 700 tekjuhæstu heimilin í kategoríunni, fengu líka sérstakar vaxtabætur úr hendi fyrri ríkisstjórnar, sem komu bönkunum sannarlega ekkert við, upp á 300 milljónir, þessi 700 heimili, þokkalega vel í lagt.

Hv. þingmanni var tíðrætt í gærkvöldi um jafnaðarmennsku og hvað hún gerði gott og allt það. Nú fer 50% niðurfellingarinnar af þessum 80 milljörðum til heimila sem eru með 6 milljónir í heimilistekjur á ári, þetta er sem sagt fólk á ASÍ-töxtum. Spurningin er þessi, af því að það hefur verið talað um að þetta sé sérsniðið að fólki sem sé mjög ríkt, mjög efnamikið o.s.frv.: Finnst hv. þingmanni 250 þús. kr. mánaðartekjur sem mynda þessar 6 millj. kr. heimilistekjur á ári hjá tveimur aðilum háar? Ég veit að fyrrverandi ríkisstjórn dró þetta fólk upp í milliþrep í tekjuskatti, en finnst hv. þingmanni að þetta fólk sé of sælt og það sé í hópi efnamestu heimila landsins?