143. löggjafarþing — 116. fundur,  15. maí 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[18:55]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Herra forseti. Við ræðum hér mál númer tvö af kosningaloforðum núverandi ríkisstjórnar, þetta er einhvers konar blanda af þeim loforðum sem gefin voru í aðdraganda kosninga. Þetta er málið sem hæstv. forsætisráðherra hefur af hógværð kallað heimsmet í skuldaniðurfellingu. Það er nú reyndar að koma í ljós að þetta er minni niðurfelling en fram fór á síðasta kjörtímabili í valdatíð ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur sem var harðlega gagnrýnd oft og margsinnis af einmitt fulltrúum Framsóknarflokksins fyrir að ganga ekki nógu langt. Það var komið fram með digurbarkalegum hætti í aðdraganda kosninganna og talað um að nú ættu hrægammarnir að leggja sitt af mörkum til þess að draga úr þeim skuldum sem sannarlega þjaka íslensk heimili. Það er að koma betur og betur í ljós að hrægammarnir, það verðum við.

80 milljarðar verða fengnir með bankaskatti, sem meðal annars er lagður á þrotabúin og hefur verið mögulegt að leggja á núna af því að það tók langan tíma að koma skýrleika á stöðu búanna og á kröfur í búin, þ.e. hvað væru lögmætar kröfur og hvað væru ólögmætar kröfur. Vegna andsvars hæstv. forsætisráðherra hér áðan við hv. þm. Oddnýju G. Harðardóttur, en þetta var ein af fjölmörgum stórum spurningum sem hann spurði, þá finnst mér ágætt að það komi fram að það var ekki af því að ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur hafi verið sérstakur talsmaður eða varnaraðili vogunarsjóða, heldur vegna þess að það var einfaldlega óframkvæmanlegt að leggja skatt á þrotabú þar sem kröfur lágu ekki fyrir. Það er hægt núna. Þangað verða sóttir 80 milljarðar. Það var stutt hér á Alþingi. Ráðstöfun þeirra er aftur á móti erfiðara að styðja. Síðan koma til tugmilljarðar til viðbótar af þessari aðgerð.

Þessir 80 milljarðar sem sóttir eru sem skatttekjur í ríkissjóð eru þó fjármagnaðir, þótt hv. formaður fjárlaganefndar hafi vissulega bent á að við verðum að vona að lögin standi með okkur í innheimtu á þeim skatti, en tugmilljarðar umfram það — það verðum við sem borgum það. Það verðum við, íbúar þessa lands, sem greiðum það gegnum ríkissjóð, í gegnum sveitarfélögin og Íbúðalánasjóð, sem kemur vissulega í gegnum ríkissjóð.

Ég hef áður rætt það í tengslum við þessi mál að við tókum við ríkissjóði sem var með halla upp á meira en 200 milljarða og unnum hörðum höndum að mjög erfiðum niðurskurðaraðgerðum sem reyndu mjög á, þær voru mjög erfiðar margar af þeim. Okkur er fyrirmunað að skilja hvernig fólk sem státar sig af því að hafa náð hallalausum fjárlögum — við eigum nú eftir að sjá útfallið úr því, vonandi gerum við upp árið 2014 hallalaust — treystir sér kokhraust til þess að stofna til svo umfangsmikilla útgjalda án þess að vita hvernig eigi að fjármagna þau. Verða þau fjármögnuð með skattheimtu? Ekki á útgerðina, það er að verða ljóst, þar er ekki vilji til skattheimtu. Ekki á ferðamenn, það er ljóst, þar var ekki vilji til skattheimtu. Hvar á að sækja þá skatta? Ef það á að gerast á útgjaldahlið, er það þá landbúnaðarkerfið sem á að borga? Er það almannatryggingakerfið þar sem um sjöunda hver króna úr ríkissjóði fer í gegn? Er það heilbrigðiskerfið? Er það löggæslan? Það hefur bara ekki neinn stjórnarliði andað því út úr sér hvar þessa fjármuni eigi að finna.

Það eru fimm nefndarálit sem fylgja þessu máli. Ég ætla ekki í ítarlega umfjöllun um þau, en í nefndaráliti 3. minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar, hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar, býr hv. þingmaður til töflu sem ég hefði nú óskað að meiri hluti nefndarinnar hefði haft ábyrgðartilfinningu til að búa til. Þar áætlar hv. þingmaður kostnaðinn sem hlýst af þessum tveimur frumvörpum ríkisstjórnarinnar um niðurfærslu skulda, verðtryggðra húsnæðisskulda, og um skattleysi af séreignarsparnaði sem lagður er inn á húsnæðislán. Hv. þingmaður bjó til þessa töflu áður en ákveðið var að hækka þakið á þeim séreignarsparnaði sem nýta má til skuldaniðurfærslu, en af lestrinum að dæma getur kostnaðurinn í heild orðið um 200 milljarðar. Hann fellur til á löngu tímabili. Sumt af honum fellur til á allra næstu árum og 80 milljarðar af því eru fjármagnaðir með bankaskatti, sem jafnvel stjórnarliðar virðast ekki treysta að muni endilega skila sér í ríkissjóð að fullu vegna lagaóvissu. Þar vitna ég eingöngu í orð hv. formanns fjárlaganefndar sem hlýtur að hafa góða yfirsýn yfir þetta.

Í nefndaráliti 4. minni hluta, hv. þingmanns og sjálfstæðismanns Péturs H. Blöndals, er farið svo ágætlega yfir hverjir það voru sem fóru verst út úr fasteignabólunni sem skapaðist hér í kjölfar einkavæðingar bankanna á vegum Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks og 90% kosningaloforðs Framsóknarflokksins í aðdraganda kosninga 2003. Þeir hópar sem verst fóru út úr því og reyndar mjög illa, sem við í Samfylkingunni höfum ítrekað og fórum fram í kosningabaráttunni með að þyrfti að halda áfram að leita leiða fyrir, eru hóparnir sem keyptu húsnæði á tímabilinu 2005 til 2009, ekki síst þeir sem keyptu þá sína fyrstu íbúð. Það er mjög góð mynd af því í nefndaráliti hv. þingmanns og sýnir okkur að það er mjög umdeilanlegt að lækka skuldir hjá fólki sem keypti fyrir þann tíma.

Fyrir mig sem jafnaðarmann get ég sagt að mér finnst ekki mikið réttlæti fólgið í því. Ef ég væri nú á sömu buxunum og sumir hér inni gæti ég, hefðum við þessa fjármuni, haft ýmsar skoðanir á því hvernig ætti að dreifa þeim út. En ég mundi vilja nýta þá takmörkuðu fjármuni sem til eru í uppbyggingu á almannaþjónustu. Að sjálfsögðu finnst mér mikilvægt að ákveðnum hópum sé mætt frekar og er tilbúin að beita mér fyrir því. En að verið sé að ívilna sérstaklega hátekju- og stóreignafólki með fjármunum sem við eigum ekki er óábyrgt, það er lýðskrum, það er vond og ljót forgangsröðun.

Formaður Samfylkingarinnar, hv. þm. Árni Páll Árnason, er með nefndarálit fyrir 1. minni hluta og fer þar ágætlega yfir afstöðu flokksins í þessum málum og hefur sjálfur gert grein fyrir því. Þar leggur hann fram fjórar breytingartillögur sem ég held að séu til þess fallnar að bæta málið mikið. Þær lúta að því að leigufélög fái sambærilega niðurfærslu, enda eru leigjendur hópur sem hefur hvað mestan húsnæðiskostnað eftir hrunið, því að leiga hefur hækkað langt umfram launavísitölu. Þá leggjum við líka til að búseturéttarhafar fái leiðréttingu á lánum sínum, sem eru húsnæðislán rétt eins og húsnæðislán annarra.

Önnur breyting felur það í sér að niðurfellingin sé eignatengd, þannig að þegar pör eru komin með hreina eign umfram 30 millj. kr. fái þau ekki skuldaniðurfellingu. Við skulum hafa í huga að fasteignaverð er mjög mismunandi á landinu og fasteignamat er mjög mismunandi. Til dæmis í dýrustu hverfum Reykjavíkurborgar, þar sem fasteignaverð hækkar nú mjög mikið, heldur fasteignamatið ekki í við markaðsverð. Hér er því verið að tala um hreina eign samkvæmt fasteignamati þannig að það getur verið um fólk að ræða sem á ekki bara 30 milljóna hreina eign, það geta verið allt upp í 40 milljónir þegar litið er til markaðsverðs. Það er eðlilegt að eignatengja gjörning sem þennan.

Síðan leggjum við til að fólk í tekjuhæstu 5% fái ekki niðurfærslu og að niðurfellingar og skerðingar hefjist við 85% mörkin, þ.e. að þeir sem eru með hærri tekjur en 85% framteljenda verði fyrir skerðingum og að skuldaniðurfærslan falli niður alfarið við þessi 95% mörk.

Svo leggjum við til að næsta haust leggi ríkisstjórnin fram frumvarp um niðurfellingu sambærilega við húsnæðisskuldirnar á námslánum, því að námslán eru verðtryggð og forsendubresturinn sem hvarf reyndar í frumvarpi ríkisstjórnarinnar — nú er þetta orðið eitthvað annað en forsendubrestur virðist vera, verðtryggð lán eru verðtryggð lán óháð því í hvað þau voru notuð. Þegar fólk notar þau til þess að fjárfesta í menntun þá er það verulega íþyngjandi og verðbólgan í kringum hrunið hefur valdið því að stórir hópar munu ekki greiða upp lánin sín fyrr en eftir að þeir hafa náð eftirlaunaaldri, ef þeir deyja þá ekki frá lánunum. Slík niðurfærsla mundi ekki skipta neinu, fólk mundi halda áfram að borga sem svarar einum mánaðarráðstöfunartekjum á ári af lánunum sínum, en það mundi stytta þann tíma sem það þarf að borga og koma í veg fyrir að það væri enn að greiða af lánunum sínum þegar það væri komið á eftirlaun.

Herra forseti. Mig langar rétt í lokin að tala um fullyrðingu hæstv. forsætisráðherra um málþóf. Það vekur mér óþægilega tilfinningu að það komi frá manni sem hélt hér uppi skefjalausu málþófi allt síðasta kjörtímabil, má þar nefna til dæmis lög um Stjórnarráð Íslands, sem má mæla í vikum frekar en dögum, hvað þá klukkustundum. Þar vorum við að ræða hvernig verkaskipting ætti að vera innan Stjórnarráðsins, það ætti ekki að vera bundið í lög, heldur væri svigrúm innan vissra marka fyrir ríkisstjórnina og væri síðan gefið út með forsetaúrskurði. Það náðist í gegn og ríkisstjórnin hefur ekki enn breytt þessum lögum, hún taldi nokkuð eðlilegt að hafa það verkstjórnarsvigrúm. Þar erum við með mælikvarða á málþóf. Ég velti fyrir mér ábyrgðartilfinningu fólks sem tekur ákvarðanir um útgjöld úr opinberum sjóðum upp á tugi milljarða, en vænir okkur sem störfum hér í umboði kjósenda um málþóf. Við höfum lagt drengskap okkar við stjórnarskrá og heitið að sinna skyldum okkar en erum sökuð um málþóf. Ekki er hægt að kalla það annað en þöggunartaktík þegar haft er í huga að umræðan um hið svokallaða heimsmet spannar ekki einn fullan vinnudag.

Sú umræða kemur í kjölfarið á því að þingflokksformaður Framsóknarflokksins kemur varla hér í pontu að hún tali ekki um að hún fagni og hlakki til að þingsköpum verði beitt til að greiða fyrir störfum þingsins. Ég velti því fyrir mér hvort það fólk sem er nýtt hér á þingi hafi einhvern tímann fylgst með þingstörfum, það tekur undir það í ýmsu samhengi að hér fari fram málþóf.

Við erum ekki að tala um breytingar á verkaskiptingu í Stjórnarráðinu sem kippa má í liðinn með lagasetningu og ríkisstjórnin hefur nú ekki haft döngun í sér að fylgja eftir hugsjónum hæstv. forsætisráðherra í þeim efnum. Við erum að tala um aðgerðir sem hafa munu áhrif á Íslandi árum og áratugum saman. Við erum að tala um óafturkræfa lagasetningu. Þó að við værum öll fylgjandi öllu í þessum frumvörpum þá er umbúnaðurinn um þau fullkomlega ófullnægjandi. Það vantar ítarlegar greiningar. Það sem Seðlabankinn hefur sagt um þessi mál eru varnaðarorð. Það sem fram hefur komið frá þeim aðilum og stofnunum sem gera greiningar á efnahag landsins eru varnaðarorð. Við í minni hlutanum komum hér upp og lýsum áhyggjum okkar af þessu, tjáum áhyggjur okkar af þeirri forgangsröðun, tjáum áhyggjur okkar af tilfærslu frá þeim efnaminni til þeirra efnameiri, þar sem fólkið sem hefur minnst úr að moða í samfélaginu er látið bera byrðar þeirra sem meira hafa, er látið taka á sig byrðar frá fólki sem hefur enga þörf fyrir slíkt. Við komum hér upp, herra forseti, og tjáum okkur og erum vænd um málþóf.

Ég ætla líka að segja í þessu samhengi að það veldur mér áhyggjum þegar talað er um það að á Alþingi fari bara fram hráskinnaleikur. Á Alþingi fer fram reglusetning í samfélaginu, lagasetning, hér fer fram eftirlit með framkvæmdarvaldinu og fjárveitingavald er í okkar höndum.

Átökin sem verið hafa í þessum þingsal síðastliðin ár endurspegla hvað hrunið leysti úr læðingi. Hrunið olli gríðarlegu tjóni, en það olli líka því að tækifæri varð fyrir ákveðna aðila til að safna auði og ná völdum í gegnum hann. Átökin í þessum þingsal endurspegla þau átök þar sem við jafnaðarmenn stöndum fyrir það að arðurinn af auðlindinni sé innheimtur með eðlilegum hætti og að þeir sem fénýta auðlindina greiði fyrir það eðlilegt gjald. Við viljum skapa gegnsæi. Við viljum skapa skýrar leikreglur sem allir fara eftir. Við höfum barist gegn sérhagsmunum þar sem bestu vinir aðal fá úthlutað gæðum, ekki af því að þeir séu best til þess fallnir eða hafi keppt í útboðum eða á samkeppnisgrunni, nei, af því að þeir eru bestu vinir aðal. Það eru þau átök sem eiga sér stað í þessum þingsal og það hentar ákveðnum öflum að kalla þessi átök bara læti og kjaftæði og draga athyglina frá því sem þessi átök snúast um.

Þegar núverandi stjórnarflokkar voru í stjórnarandstöðu tókst þeim með ótrúlegum látum og ósvífni að þyrla upp ryki og koma síðan með ósvífin loforð. Og með óábyrgum málflutningi, framgöngu sinni í þinginu og með fordæmalausum kosningaloforðum tókst þeim að komast aftur til valda þar sem almenningur í landinu er þreyttur á skuldabyrði, lífskjaraskerðingu í kjölfar hrunsins. Við erum byrjuð aftur í darraðardansinum. Við sjáum hvernig aftur er komið með skattalækkanapólitíkina, sem er vissulega jákvætt. Hver vill ekki borga lægri skatta? En hvað notum við skattana í? Við notum þá í almannaþjónustu og við notum þá í almannatryggingar. Við notum þá í atvinnuleysistryggingar. Við notum þá í fæðingarorlof. Við notum þá í löggæslu. Við notum þá í landbúnaðarkerfi og niðurgreiðslu á virðisaukaskatti til gistiheimila eða gististaða í ferðaþjónustu eftir breytingar meiri hlutans hér í sumar.

Ég lýk ræðu minni hér um heimsmetið í 2. umr. á því að vara við því að umræða um átök hér á Alþingi sé sett í þann búning að það sé bara vanstillt fólk sem kunni ekki almennileg vinnubrögð sem vinni hér. Svo er ekki. Hér er fólk sem tekst á um mismunandi lífssýn, tekst á um hvaða leið við viljum til framtíðar fyrir íslenskt samfélag.