143. löggjafarþing — 123. fundur,  18. júní 2014.

lekinn í innanríkisráðuneytinu.

[15:14]
Horfa

innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég legg til að hv. þingmaður kynni sér málið eilítið betur. Rannsókn málsins er ekki lokið. Það hefur ítrekað komið fram. Lögregla og ríkissaksóknari halda utan um rannsókn málsins sem lýtur að ósk lögreglunnar um að blaðamaður Morgunblaðsins tjái sig.

Nú hlær þingmaðurinn og það getur vel verið að henni finnist það eitthvað fyndið en rannsókn málsins er ekki lokið. Meðan svo er getur innanríkisráðherra ekki tjáð sig um málið. Það hefur ítrekað komið fram. Ég veit að hv. þingmaður reynir ítrekað að gera sér einhvern mat úr málinu og heldur því núna fram að niðurstaðan hafi fengist og nú eigi innanríkisráðherra að tjá sig. Niðurstaðan er ekki fengin. Niðurstaðan í Hæstarétti í dag lýtur einungis að því að ekki sé talið að umræddur blaðamaður eigi að tjá sig. Innanríkisráðuneytið á ekki einu sinni aðild að þessu dómsmáli.

Ég hvet þingheim og hv. þingmann til að kynna sér málið betur. Hún segist ítrekað hafa fjallað um það á þingi og óskað eftir svörum. Niðurstaðan er ekki fengin. Á meðan svo er er ekki eðlilegt að dómsmálaráðherra, sú sem hér stendur, (Forseti hringir.) eða aðrir starfsmenn ráðuneytisins tjái sig um málið.

Rannsóknin hefur tekið fimm mánuði (Forseti hringir.) og nú er búið að leiða blaðamenn fjórum sinnum (Forseti hringir.) fyrir dómara út af því og við skulum vonast til að málinu fari að ljúka. Þá mun ekki standa (Forseti hringir.) á þeirri sem hér stendur að tjá sig um málið eða taka á því.