144. löggjafarþing — 3. fundur,  11. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[16:27]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Að sjálfsögðu þurfum við alltaf að skoða þær reglur sem við höfum í samfélaginu okkar hverju sinni því að tímarnir breytast og tæknin og hlutirnir sem við erum að nota breytast með. Að sjálfsögðu hlýtur að þurfa að fara yfir listana og skoða hvort við erum að meta hluti rétt og hvort við erum að leggja á gjöld sem okkur finnst vera sanngjörn eða hvort stokka þurfi upp í kerfinu. Ég tel heils hugar undir að það sé vinna sem sé gott að fara í og skoða. En ég vil ekki fyrir fram gefa mér niðurstöðu í því hvað ég vilji svo gera þegar sú vinna hefur farið fram.

Ég vil að lokum ítreka að ég held að það sé mjög mikilvægt að við látum kostnaðargreina þá þætti sem verið er að leggja til hér í fjárlagafrumvarpinu til að ég og hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson, og við önnur sem erum í þessari umræðu, þurfum ekki að vera að giska á hvaða áhrif eitthvað kunni hugsanlega eða kannski að hafa, heldur fáum við bara greiningu á því hvernig ólíkar breytingar, sem við kunnum að gera á skattkerfinu, koma við ólíka hópa. Vonandi getum við svo í lokin tekið upplýsta ákvörðun á grundvelli þess.