144. löggjafarþing — 3. fundur,  11. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[16:29]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Á þeim 5 mínútum sem nú eru ætlaðar fyrir ræður okkar þingmanna sem sitjum ekki í fjárlaganefnd eða annars staðar ætla ég að nota tækifærið til að spyrja hæstv. fjármálaráðherra út í það misræmi sem kemur fram í þessu hefti um stefnur og horfur og hefur verið gert hér að umtalsefni. Það snertir breytingar á virðisaukaskattskerfinu sem áætlaðar voru þegar heftið fór í prentun. Síðan eins og gengur og gerist hefur verið tekin önnur ákvörðun um það sem er sett svo endanlega inn í fjárlögin. Með leyfi forseta, stendur í kaflanum um virðisaukaskatt:

„Einnig er gert ráð fyrir áfangaskiptri breytingu á virðisaukaskatti í tekjuáætluninni.“

Þar er sem sagt verið að ræða hvort eigi að fara með virðisaukaskatt í 24,5% og áfangaskipta því á tvö ár o.s.frv. Nú hefur verið tekin ákvörðun um að hærra þrepið verði lækkað í 24% og lægra þrepið hækkað úr 7 í 12%. Og vegna þess sem hér segir um tekjuáætlunina er spurning mín til hæstv. fjármálaráðherra þessi: Er tekjuáætlunin í frumvarpinu sjálfu þar sem gert er ráð fyrir 4 milljarða kr. afgangi á fjárlögum miðuð við það sem hér var áætlað? Með öðrum orðum, eftir að búið er að ákveða 24 og 12% breytist þá þessi tala með því?

Þetta er veigamikið atriði til að fá úr því skorið hvort frumvarpið eins og það er lagt fram er með 4 milljarða kr. afgangi eða kannski 2 eða 1 vegna þessara breytinga hér. Þetta getur maður hvergi lesið sér til um vegna þess að þetta er auðvitað í reiknilíkönum uppi í fjármálaráðuneyti. Vonandi er hægt að slá þar inn tölurnar sem miðað er við í dag og forsendur sem settar eru fram og sjá hvað kemur út úr þessu.

Hitt atriðið sem ég vildi spyrja hæstv. fjármálaráðherra út í og vildi frekar gera það í þessari stuttu ræðu og óska eftir því að hæstv. fjármálaráðherra svari því bara stutt í andsvari, er um hinn mikla niðurskurð til samgönguframkvæmda sem boðaður er í frumvarpinu. Það er þannig að maður getur lesið það þó svo maður ræði það örugglega betur við innanríkisráðherra á morgun. En ég kannast ég ekki við það frá síðustu alþingiskosningum að frambjóðendur stjórnarflokkanna hafi borið það fyrir kjósendur sína að það ætti að skera svo mikið niður til samgönguframkvæmda eins og hér er sýnt, öðru nær. Það er verið að taka þær niður um 3 til 3,5 milljarða miðað við það sem kom fram í samgönguáætlun. Bætt er við 850 millj. kr., en svo koma alls konar liðir til frádráttar. Ég nefni sem dæmi framkvæmdir í Suðurkjördæmi og ég sakna þess að þingmenn úr því kjördæmi skuli ekki hafa komið og spurt út í það að verið er að fella niður fjárveitingu til Landeyjahafnar sem þarf að lagfæra eftir þau áföll sem við höfum orðið fyrir þar, óvænt áföll, gos og fleira. Það er líka verið að fella niður framlög um 250 millj. kr. til undirbúnings að byggingu nýrrar ferju eða til leigu eða hvernig sem það er orðað í þessum gögnum.

Þetta eru þær tvær spurningar sem ég vildi leggja fyrir hæstv. fjármálaráðherra hér í þessari stuttu 5 mínútna ræðu minni. Ég mun væntanlega á morgun fara betur út í umræðu um virðisaukaskattskerfið. Ég vildi bara benda á þessa breytingu sem þarna er boðuð, sem á að vera til einföldunar þó ég sjái ekki alveg hvernig einföldunin verður vegna þess að áfram verðum við með tvö þrep, 24 og 12% í staðinn fyrir 25,5 og 7%. Hvað verður einfaldara við það? Hér er boðað að nokkur undanþáguákvæði verði tekin út, þar á meðal ferðalög íþróttafélaga sem hafa verið undanþegin hingað til en koma nú inn með 12% virðisaukaskatt. Ég er ekki alveg viss um að það hafi verið tekið inn í öll reiknilíkönin og ég er heldur ekki búinn að sjá hvernig þetta kemur niður á Ferðasjóði íþróttafélaga.

Að lokum ætla ég að benda á, vegna þess að það bar hér á góma, að virðisaukaskattsbreytingin hefur meiri áhrif á vöruverð á landsbyggðinni en hér á höfuðborgarsvæðinu. Það er nefnilega vegna þess að flutningskostnaður á matvöru út á land er tekinn inn í kostnaðarverð og svo leggst virðisaukaskatturinn þar ofan á. Með öðrum orðum, ríkissjóður fær miklu hærri virðisaukaskatt af þeim sem kaupir matvöru á Raufarhöfn heldur en í Reykjavík. Ég spyr hæstv. fjármálaráðherra: Er inni í dæminu að hækka flutningsjöfnunarsjóðinn og taka matvöruna þar inn í verslunina, eins og stendur í byggðatillögu okkar jafnaðarmanna sem búið er að leggja hér fram á Alþingi?