144. löggjafarþing — 4. fundur,  12. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[16:47]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Til þess að klára umræðuna um Framleiðnisjóð þá tek ég undir með hv. þingmanni um mikilvægi hans og jafnvel að byggja hann upp með sambærilegum hætti og stóru sjóðina til þess að geta svarað því sem þar þarf að gera. Það eru til að mynda hagnýtar rannsóknir í landbúnaði sem taka umtalsvert langan tíma en er kannski ekki víst að stóru samkeppnissjóðirnir hafi horft á réttan hátt til, skulum við segja. Það er verkefni sem við þurfum að vinna í líka.

Varðandi samninginn var auðvitað farið yfir það í ráðuneytinu að hann er gerður með fyrirvara um fjárveitingar, svo að það sé alveg klárt að heimilt er að setja 17 milljónir að þessu sinni, eins og við gerum hér, í Framleiðnisjóð.

Hvað Matvælastofnun varðar er eitt af grundvallarverkefnum Matvælastofnunar að sinna varnarlínum og sauðfjárveikivörnum. Það er alveg rétt sem hv. þingmaður bendir á að þetta er mikilvægur málaflokkur, annars vegar viðhald þeirra lína sem fyrir eru og hins vegar niðurrif og að hreinsa upp þær línur sem menn eru hættir að nota. Við höfum tekið þetta upp í ráðuneytinu og höfum óskað eftir greinargerð frá Matvælastofnun um umfang þessa þáttar. Það eru ákveðnar vísbendingar um að þessi tiltekni málaflokkur gæti verið vanáætlaður í fjármagni í stóra bókhaldi Matvælastofnunar. Þá þurfum við að velta því fyrir okkur hvort stofnunin geti hagrætt innan síns sviðs eða hvort við þurfum hreinlega, um leið og við höfum séð umfangið á verkefninu og hversu mikið það er sem þarf að hreinsa upp af línum, að setja aukið fjármagn til þess. Við getum auðvitað ekki horft upp á það að ónýtar girðingar sem menn eru búnir að ákveða að leggja af sem varnarlínur, hangi uppi á heiðum eða hvar sem það nú er. Þetta er því verkefni sem við erum komin af stað með og þetta skýrist vonandi í haust þannig að það mál geti komið inn í vinnu í þinginu.