144. löggjafarþing — 6. fundur,  16. sept. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[18:12]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla nú ekki að lengja þessa umræðu, en ég hygg að svona 90–95% af því sem ég les sé af tölvum og netinu. Jú, margt af því skáldskapur, því miður eru margar upplýsingar sem ég fæ hreinn skáldskapur. [Hlátur í þingsal.] Ég verð að taka því öllu þannig.

Ég held að það sé rétt að skoða þetta nákvæmlega, hvernig það virkar á hugbúnað, hvort hann eigi ekki að vera í lægra þrepinu almennt, sem og tölvur, þær eru jú menningartæki, ég þarf tölvu til þess að lesa þessi 95% af því sem ég les á netinu. Ég held að nefndin ætti kannski að skoða það nákvæmlega.

Ég er mjög hlynntur því að hækka neðra þrepið og lækka efra þrepið og minnka muninn á milli þessara þrepa og alveg sérstaklega er ég ánægður með að efra þrepið hefur aldrei verið lægra en hér er lagt til.