144. löggjafarþing — 6. fundur,  16. sept. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[20:48]
Horfa

Vilhjálmur Bjarnason (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar til að beina tveimur ef ekki þremur spurningum til hv. þingmanns sem hér talaði síðast. Hefur þingmaðurinn eitthvað fyrir sér í því eins og hún lét að liggja að tekjulágir kaupi ekki raftæki? Í fyrsta lagi.

Í öðru lagi. Telur þingmaðurinn rétt og eðlilegt að miða stærsta tekjuöflunarkerfi ríkissjóðs einungis við tekjur þeirra sem lægstar hafa tekjurnar?

Er ekki fremur kannski í þriðja lagi ráð að leita leiða þar sem kann að vera halli á tekjulága hópa til þess að bæta þeim upp en styrkja þetta tekjuöflunarkerfi?

Ég ætla að leggja hér út af fyrstu spurningu minni. Til dæmis hafa tekjulágir ekki efni á að kaupa sér nýjan bíl en þeir gætu til dæmis þurft að kaupa sér varahluti í bílinn og spara sér þannig. Nú lækka til dæmis vörugjöld á varahlutum þannig að það er ekkert hægt að taka hér einhverja hópa út úr og segja að þessi njóti ekki.

Ég hef lokið máli mínu að sinni.