144. löggjafarþing — 6. fundur,  16. sept. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[23:21]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Helga Hjörvar fyrir ágætisræðu. Hún var reyndar dálítið dapurleg og ég var eiginlega dapur eins og ég hef nú verið glaður í kvöld út af þessu frábæra frumvarpi.

Það er rétt, sem hv. þingmaður sagði, um fyrri ríkisstjórn, að hún tókst á við gífurlega mikið verkefni og leysti sumt vel og annað ekki eins vel. Ég hafði til dæmis alltaf miklar efasemdir um þær gífurlegu skattbreytingar sem hún gerði en ég ætla ekki að ræða meira um það.

Mig langar til að spyrja hv. þingmann hvort hann sé að ræða sama mál og við hin ræðum hér, þ.e. á þskj. 2, mál 2. Þar stendur í II. kafla að fella eigi niður öll vörugjöld. Hv. þingmaður talaði eiginlega ekkert um það.

Ég endurtek spurningar mínar: Er þingmaðurinn ekkert glaður yfir því að vörugjöldin verði felld niður á einu bretti? Í því sambandi vil ég spyrja hann hvort hann hafi komið inn á heimil þar sem ekki er ísskápur og hvort hann hafi komið inn á heimili þar sem ekki er eldavél. Ég spyr hvort hann hafi komið inn á heimili þar sem ekki er bakaraofn og þessar venjulegu heimilisgræjur sem eru á öllum heimilum, hvort hann telji að fólk þurfi ekki að kaupa þessi tæki hvort sem það er með háar tekjur eða lágar og hvort það nýtist ekki þegar verð á þessum tækjum lækkar um 17–25%.

Það gerist meira að segja svo hratt, herra forseti, að um leið og frumvarpið er lagt fram byrjar verðið að lækka. Það er ekki einu sinni búið að samþykkja það og nokkrar verslanir í Reykjavík hafa þegar lækkað verðið sem kemur öllum til góða og alveg sérstaklega lágtekjufólki.