144. löggjafarþing — 7. fundur,  17. sept. 2014.

störf þingsins.

[15:28]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Eins og kom fram í umræðum um breytingar á skattkerfinu hér í gærkvöldi hef ég mjög miklar áhyggjur af því hvert stefnir og tel rangt farið að, því að þær breytingar sem fyrirhugaðar eru munu helst bitna á þeim sem hafa lágar fjárhæðir sér til framfærslu. Eins og ég kom að í gærkvöldi og ræddi hér í frekar fámennum sal finnst mér þetta stórmál sem er mikilvægt að ræða.

Hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson segir virðisaukskattsfrumvarp hæstv. fjármálaráðherra koma óvenjusnemma fram og að því beri að fagna. Ég þekki það reyndar ekki alveg hvenær slík frumvörp koma fram en ég er sammála því að ef það kemur snemma fram þá beri að fagna því, en þá þurfa líka þingmenn að vera til staðar og vilja ræða það. Það er svo sem út af fyrir sig ágætt að hv. þingmenn lýsi skoðunum sínum á bloggi eða á öðrum opinberum vettvangi og tjái þar afstöðu sína en við verðum að fara í umræður í þinginu, eða er það ekki hlutverk okkar sem hérna erum að ræða málin sem lögð eru fram? Það er ekki nóg að gera það bara í umræðum um störf þingsins heldur verður það að gerast í umræðu um þingmálið sjálft.

Þess vegna hvet ég hv. þingmenn Framsóknarflokksins, sem hafa á ýmsum vettvangi tjáð skoðanir sínar til þeirra breytinga sem hér eru boðaðar á virðisaukaskattskerfinu og hækkun á matarskatti, til þess að demba sér í að skrá sig á mælendaskrá og koma með í umræðuna.