144. löggjafarþing — 8. fundur,  18. sept. 2014.

stefnumótun í heilsugæslu.

[11:52]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Við ræðum hér stefnumótun í heilsugæslu sem er mjög brýnt málefni. Niðurskurður hefur verið til heilsugæslunnar og komugjöld hafa verið hækkuð í tíð þessarar ríkisstjórnar. Komugjöldin voru lækkuð og höfð óbreytt allan niðurskurðartímann eftir hrun hjá fyrri ríkisstjórn og heilsugæslunni var hlíft sem mest mátti.

Þetta sýnir ólíkar áherslur hægri og vinstri stjórna í velferðarmálum. Ég tel mjög mikilvægt að efla heilsugæsluna sem fyrsta viðkomustað sjúklinga. Stefna okkar vinstri grænna er að það sé valfrjálst tilvísunarkerfi í heilbrigðisþjónustu. Ég tel mikilvægt að það sé víðtækt samráð ef stjórnvöld ætla að fara þá leið og það skiptir máli hvernig það er útfært.

Sú stefna núverandi stjórnvalda að endurskipuleggja þjónustu heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu á grundvelli tillagna um fjölbreytt rekstrarform er vissulega áhyggjuefni. Það þýðir í mínum huga á mannamáli aukinn einkarekstur. Við erum því miður með í dag tvöfalt kerfi á höfuðborgarsvæðinu, annars vegar heilsugæsluna og hins vegar starfandi heimilislækna sem eru leifar af gamla kerfinu. Það má segja að tilvísunarkerfið sé í raun það fyrirkomulag sem landsbyggðin býr við, þar sem greitt aðgengi er að heilsugæslu og hún fyrsti viðkomustaður sjúklinga. Vinstri græn hafa stutt endurskipulagningu heilsugæslu á höfuðborgarsvæðinu enda ekki vanþörf á. Það eru yfir 10 þús. manns sem eru án heimilislæknis og stofnanir hafa verið óbreyttar í fjölda ára. Það eru 15 heilsugæslustöðvar misstórar og með mismikla þjónustu og við teljum brýnt að bæta þjónustuna og minnka miðstýringu en við viljum ekki einkavæða fleiri stöðvar.

Það fyrirkomulag sem vinstri græn aðhyllast er módelið á Akureyri sem ég ætla að ræða hér í seinni tíma mínum.