144. löggjafarþing — 11. fundur,  23. sept. 2014.

byggingarvörur.

54. mál
[14:20]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Nú felldi hæstv. ráðherra mig alveg kylliflatan. Hann nefndi til sögunnar að þetta skipti máli fyrir steinullarverksmiðjuna á Sauðárkróki. Ég ber eins og hæstv. ráðherra auðvitað hag skagfirska efnahagssvæðisins mjög fyrir brjósti. Það eitt út af fyrir sig eyðir öllum efasemdum um málið.

Gamanlaust þó er þetta mjög flókið mál og um það hafa staðið deilur á Íslandi, líka í öðrum löndum. Ég held að þingið þurfi að gefa sér mikinn tíma til þess að fara vel yfir þetta. Í þessum reglugerðum leynast stundum hlutir sem menn sjá kannski ekki við fyrstu sýn og þarf nána og ítarlega yfirferð sérfræðinga til þess. Ég er náttúrlega tæknikrati. Ég treysti mjög vel starfsmönnum ráðuneytanna sem eru nánast búnir að svitna í hel yfir sumum af þessum flóknu reglugerðum.

Leyfist mér þá, herra forseti, að rifja það upp að það var svolítið annar bylur í hæstv. ráðherra á síðasta kjörtímabili þegar hann ásamt mörgum góðum drengjum og stúlkum í Framsóknarflokknum kom hér upp og fáraðist yfir því hvað þeirri ríkisstjórn lá á að koma í gegn málum. Hæstv. ráðherra rifjaði þá eins og núna stundum upp reynslusögur úr Evrópusambandinu sem bentu til þess að stundum fengju fyrirtæki þar að fara miklu stimamýkri höndum um reglugerðirnar. Ég gæti farið með slíka reynslusögu líka, hef af því vonda reynslu, og borið saman við Ísland.

Það breytir því ekki að ég skil það vel að við þurfum að standa við samningsskuldbindingar okkar. Þess vegna þurfa menn að koma þessu í gegn. Mikið óskaplega, herra forseti, hefði ég viljað að sá skilningur sem ég sýni hæstv. ráðherra gagnvart samningsskuldbindingum Íslands í dag — ég styð hann í því að koma þessu í gegn —hefði á fyrra kjörtímabili stundum látið á sér kræla, að ég segi ekki að ég hefði viljað sjá hann bulla og sjóða, í sálu hv. þingmanns sem hér fór eins og naut í flagi gegn sumum af þeim málum sem (Forseti hringir.) við þurftum að innleiða bara af því hann var á móti Evrópusambandinu og sá þá djöfulinn í öllu (Forseti hringir.) sem frá ESB kom. Ég gæti haft um það miklu lengri og snjallari ræðu, en geri ekki.