144. löggjafarþing — 11. fundur,  23. sept. 2014.

framtíðargjaldmiðill Íslands.

15. mál
[15:37]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka flutningsmönnum fyrir þessa ágætu þingsályktunartillögu og fagna því að hún er komin fram aftur og bind vonir við að hún hljóti afgreiðslu í þetta sinn. Mér finnst það ágætisnálgun að leggja málið upp með þessum hætti að það þurfi að greina gjaldmiðilsstefnu við þarfir þjóðarinnar og marka okkur stefnu út frá því.

Í greinargerð með þessari þingsályktunartillögu er vikið að því að það hafa verið gerðar vandaðar hagfræðilegar greiningar á kostum og göllum ólíkrar umgjarðar fyrir peningastefnuna. Niðurstaðan í hinu víðfræga 620 síðna riti Seðlabankans eru sú að það sé um tvo raunverulega valkosti að ræða, evru með aðild að Evrópusambandinu og áframhaldandi íslenska krónu með einhverri umgjörð. Það er því góðra gjalda vert að reyna að finna leið til þess að hnika þessu máli áfram með aðkomu allra flokka og í einhverju samtali um hvað geti verið okkur fyrir bestu.

Ég held að við verðum líka að horfast í augu við að það er ekki til neitt sem heita íslenskir hagsmunir í þessu máli því að hagsmunum er misskipt í landinu. Það er og hefur verið alveg frá Píningsdómi á 15. öld áberandi togstreita í íslensku efnahagslífi milli þeirra sem hafa hag af opnum viðskiptum við önnur lönd og þeim sem hafa hag af hömlum á opnum viðskiptum við önnur lönd. Þeir sem hafa hag af hömlum á opin viðskipti við önnur lönd voru þá og eru enn þann dag í dag aðilar sem byggja mikið á launakostnaði og það skiptir þá þar af leiðandi máli að hafa tæki til að stýra kaupgjaldinu í landinu. Þessi togstreita teygir sig síðan áfram alveg í átökin um afnám vistarbands á 19. öld og yfir í baráttuna hér í þingsal eftir að Skúli Thoroddsen lagði fram frumvarpið um greiðslu verkkaups í gjaldgengum peningum, vel að merkja sem á endanum var samþykkt árið 1901, en það kvað á um greiðslu í gjaldgengum peningum, með öðrum orðum peningum sem hægt væri að selja í öðrum löndum. Við höfum ekki enn þá notið þeirra réttinda sem kveðið var á um í þeim lögum frá 1901. Við fáum greitt í peningum sem ekki er hægt að selja í öðrum löndum, eru ekki gjaldgengir. Síðan hefur þessi saga teiknað sig alla 20. öldina í átökum um hafta-Ísland eða opið Ísland og þau standa enn.

Í grunninn hentar íslenska krónan sumum Íslendingum ákaflega vel. Hún hentar þeim sem eiga ekki mikið undir erlendum opnum viðskiptum en eiga mikið undir því að geta skammtað laun og geta ráðið launakjörunum. Ágætur prófessor við Háskóla Íslands, Hannes Hólmsteinn Gissurarson, hefur haldið varnarræður fyrir íslensku krónuna með þeim rökum hún sé leið til þess að skerða kjör fólks án blóðsúthellinga, hún sé leið til þess að taka helminginn af launum fólks eins og gert var í hruninu án þess að allt fari á annan endann. Það fór auðvitað allt á annan endann í hruninu vegna þess að lánin sátu eftir á gamla verðinu en launin voru helminguð og það var ástæða mikillar togstreitu, samfélagslegrar upplausnar og átaka á Íslandi.

Ég vil meina að kostir íslenskrar krónu hafi verið um hríð þeir að hagsmunaöflin, sem leiða útflutningsatvinnuvegina og framleiðsluatvinnuvegina, hafi getað skammtað þjóðinni kjör og þannig hafi verið hægt að bregðast við aðstæðum með því. Þegar væntingar manna um kjarabata hér innan lands voru orðnar fullmiklar var bara hægt að lækka launin á öllu heila klabbinu og þar með hægt að taka af mönnum það sem þeir töldu sig hafa fengið í kjarasamningum.

Ég vil meina að þeir tímar, að þetta sé efnahagsleg lausn, séu liðnir og ég vil meina að þeir sem flytja lofræðu um íslenska krónu, hvort sem það er sú ágæta ríkisstjórn sem nú situr eða aðrir, séu ekki í nokkru jarðsambandi við þjóðina. Ég held að þróun síðustu ára segi okkur þvert á móti að þjóðin sé ekki tilbúin lengur að færa þær fórnir í hækkuðu vöruverði, í aukinni vaxtabyrði og í auknum kostnaði af verðtryggðum lánum sem fylgja óhjákvæmilega sveiflum í gengi krónunnar og þar af leiðandi sé tómt mál að tala um að það verði samfélagslegur friður um íslensku krónuna sem efnahagslegt stýritæki í framtíðinni eins og var drýgstan hluta 20. aldarinnar. Ég held þess vegna að við séum komin að ákveðnum endimörkum með þessa tilraun, hina íslensku krónu. Herkostnaðurinn af henni er slíkur að til að halda samfélagsfrið verður að fara í mjög dýrar aðgerðir til að niðurgreiða brunasviða þjóðarinnar af þeim eldi sem krónan hefur komið af stað yfir þjóðina. Besta dæmið um það er skuldaniðurfellingin mikla sem er leiðin til að láta fólk þola afleiðingar krónunnar. Það er dýr leið. Hún kostar mikið og það eru allar horfur á að hægt væri að tryggja okkur meiri velsæld og betri lífskjör með stöðugra peningakerfi.

Í umræðunni hér áðan vakti ágætur varaþingmaður máls á því hvort vandinn væri krónan eða hvort vandinn væri brotakerfið sem bankakerfið getur reitt sig á. Ég er alveg tilbúinn að ræða ólíkar hugmyndir um fyrirkomulag fjármálastjórnunar en hinu verður ekki á móti mælt að grundvallarréttur í lýðfrjálsu borgaralegu samfélagi er að fólk ráði eignum sínum og það sé ekki hægt að svipta það eignum sínum án þess að spyrja það og að það geti gert áætlanir fram í tímann. Það heyrir til borgararéttinda í öllum hinum vestræna heimi að geta gert áætlanir byggðar á afkomu um afborganir og framtíðarútgjöld. Það er hægt á öllum Vesturlöndum nema á Íslandi. Það er grundvallarveikleiki sem skekkir samkeppnisstöðu okkar og skaðar lífskjör okkar og setur okkur að því leyti skör lægra en aðrar þjóðir í Evrópu. Þess vegna held ég að þessi tillaga sé góðra gjalda verð. Ég þakka flutningsmönnunum fyrir að flytja hana og hlakka til að eiga síðan um hana umræður á vettvangi þingsins áfram og fá hana vonandi samþykkta.